Innherji

Metár í útgreiðslum gæti skilað fjárfestum nálægt 200 milljörðum

Hörður Ægisson skrifar
Líklegt er að arðgreiðslur flestra fyrirtækja í Kauphöllinni muni hækka á árinu 2022 en heilt yfir hefur rekstur þeirra verið góður á árinu sem er að líða. 
Líklegt er að arðgreiðslur flestra fyrirtækja í Kauphöllinni muni hækka á árinu 2022 en heilt yfir hefur rekstur þeirra verið góður á árinu sem er að líða.  VÍSIR/VILHELM

Útlit er fyrir að arðgreiðslur og kaup íslenskra fyrirtækja í Kauphöllinni á eigin bréfum á næsta ári verði sögulega háar og geti samanlagt nálgast hátt í 200 milljarða króna. Það yrði þá tvöfalt meira en áætlað er að slíkar útgreiðslur til hluthafa félaganna hafi numið á árinu 2021, eða rúmlega 80 milljarðar, sem eru engu að síður þær mestu sem sést hafa frá endurreisn hlutabréfamarkaðarins eftir fjármálahrunið 2008.

Væntingar um gríðarmikið fjárflæði til hlutabréfafjárfesta á komandi ári stafar meðal annars af því að bankarnir sem eru skráðir á markað, einkum Arion banki og Íslandsbanki, hafa yfir að ráða umtalsverðu umfram eigið fé sem þeir munu vilja greiða út til hluthafa og þá þykir ljóst að 46 milljarða króna söluhagnaður Símans á Mílu verði að hluta ráðstafað í arðgreiðslu til fjárfesta.

Sérfræðingar á fjármálamarkað vænta þess að mikill meirihluti þeirra fjármuna sem félögin muni greiða út til hluthafa verði endurfjárfest á hlutabréfamarkaði. Leiti það fé aftur inn á markaðinn mun það styðja verulega við fyrirhugaðar áætlanir sumra fyrirtækja um nýskráningar í Kauphöllina og eins yfirlýst áform stjórnvalda um að halda áfram með sölu á eftirstandandi 65 prósenta hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka.

„Rekstur hefur heilt yfir verið með ágætum á þessu ári, sem hefur meðal annars birst í fjölda jákvæðra afkomutilkynninga, og líklegt að arðgreiðslur muni aukast hjá flestum félögum í Kauphöllinni,“ segir Þorsteinn Andri Haraldsson, sjóðstjóri hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka.

Horft inn í næsta ár telur hann að gera megi ráð fyrir því að arðgreiðslur og endurkaup aukist talsvert og ekki sé ólíklegt að heildarfjárhæðin muni liggja á bilinu 150 til 200 milljörðum króna. Það myndi jafngilda liðlega 6 til 8 prósentum sem hlutfall af samanlögðu markaðsvirði allra fyrirtækja í Kauphöllinni um þessar mundir.

Þorsteinn bendir á að ef litið er til þeirrar arðgreiðslustefnu sem félögin í Kauphöllinni hafi sett sér þá megi hæglega reikna með því að þau muni geta greitt að lágmarki rúmlega 60 milljarða króna í arð til hluthafa sinna á árinu 2022.

„Við það bætist,“ útskýrir Þorsteinn, „umfram eigið hjá bönkunum þremur ásamt sölum Símans á Mílu og Sýnar á óvirkum innviðum, sem og yfirvofandi sölu Arion banka á Valitor. Það má leiða líkur að því að stór hluti þessara fjármuna muni leita aftur inn á markaðinn enda innlendir aðilar fyrirferðamestir á hlutahafalistum þeirra félaga sem munu skila hvað mestu til hluthafa. Það kæmi sér afar vel í ljósi þess að fyrir liggur að selja stóran hlut í Íslandsbanka á árinu,“ segir hann.

Mörg fyrirtæki með fulla vasa fjár

Stjórnendur Arion banka, sem hafa á þessu ári greitt út um 36 milljarða til hluthafa sinna í formi arðs og endurkaupa, hafa gefið það út að umfram eigið fé bankans sé í dag liðlega 60 milljarðar. Áætla má að hagnaður bankans á árinu 2021 verði í kringum 30 milljarðar króna og miðað við arðgreiðslustefnu Arion má vænta þess að helmingurinn verði greiddur út í arð til hluthafa. Þá mun bankinn enn hafa yfir að ráða meira en 40 milljörðum sem hann getur ráðstafað til hluthafa félagsins. Sama á við um Íslandsbanka en gera má ráð fyrir að umfram eigið fé bankans – í síðasta árshlutauppgjöri var það sagt vera 35 milljarðar – verði vel yfir 40 milljarðar króna þegar uppgjör ársins 2021 liggur fyrir.

Þorsteinn Andri Haraldsson, sjóðstjóri hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni.

Þá er ljóst að útgreiðslugeta Símans verður gríðarleg þegar salan á dótturfélaginu Mílu til franska sjóðsins Ardian fyrir 78 milljarða króna mun að líkindum klárast á næsta ári. Fram hefur komið að söluhagnaðurinn nemur 46 milljörðum og þá mun félagið einnig fá 15 milljarða króna framseljanlegt skuldabréf í skiptum fyrir hlutinn í Mílu. Forstjóri Símans hefur sagt að hluti söluandvirðisins verði greiddur út til hluthafa.

Megnið af útgreiðslum rati aftur inn á markaðinn

Gísli Halldórsson, sjóðstjóri hlutabréfa hjá Íslandssjóðum, segir allt benda til þess að arðgreiðslur og endurkaup á árinu 2022 verði umtalsvert meiri en í fyrra og geti hæglega orðið allt að tvöfalt hærri. Þar komi til að áfram sé verulegt umfram eigið fé hjá mörgum félögum, einkum bönkunum, rekstur fyrirtækja í Kauphöllinni hafi almennt gengið vel og þá muni miklu um stórtækar eignasölur að undanförnu.

Það má leiða líkur að því að stór hluti þessara fjármuna muni leita aftur inn á markaðinn enda innlendir aðilar fyrirferðamestir á hlutahafalistum þeirra félaga sem munu skila hvað mestu til hluthafa.

Gísli tiltekur þar meðal annars sölu Símans á Mílu, sem skapar verulegt svigrúm fyrir arðgreiðslu, og það sama eigi einnig við um lóða og/eða eignasölur smásölufélaganna og innviðasölu Sýnar. „Sala Origo á hlut sínum í Tempo færist sömuleiðis nær í tíma og þá hafa meðal annars útgerðafélögin, Eimskip og fasteignafélögin varið töluvert af sjóðstreymi síðustu ára í fjárfestingar sem gera má ráð fyrir að verði minna horft til á næstu árum sem ætti aftur að auka getu þeirra til arðgreiðslna,“ að sögn Gísla.

Aðspurður segir hann erfitt að spá fyrir um það með mikilli vissu hversu stór hluti þessara arðgreiðslna og endurkaupa muni leita aftur út á markaðinn. „Við getum hins vegar gert ráð fyrir því að vel yfir 5 prósent af markaðsvirði skráðu félaganna verði greitt út í formi arðgreiðslna og endurkaupa á árinu 2022 og því ljóst að þeir hluthafar sem endurfjárfesta ekki á markaðnum eru að vigta sig niður í eignaflokknum,“ útskýrir Gísli.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, hefur sagt að reikna megi með því að 46 milljarða söluhagnaður vegna Mílu verði greiddur út til hluthafa á næsta ári.Isavia

Bendir hann á að lífeyrissjóðir séu stærstu eigendur innlendra hlutabréfa, samanlagður eignarhlutur þeirra sé um 40 prósent af markaðsvirði félaganna, og áætla megi að megnið af arðgreiðslum til þeirra muni rata aftur inn á hlutabréfamarkaðinn. Þá sé eignarhald erlendra fjárfesta, leiðrétt fyrir Marel, undir tvö prósent af öllum markaðnum en reynslan hafi sýnt að sá hópur fjárfesta hafi aðeins að litlum hluta fjárfest sínum arðgreiðslum að nýju inn á innlenda hlutabréfamarkaðinn.

„Arion hefur verið leiðandi í útgreiðslum og verður það svo sannarlega áfram árið 2022,“ útskýrir Gísli, „en í byrjun árs var bankinn að stórum hluta í eigu erlendra sjóða en gjörbreytt eignarhald blasir hins vegar við nú þar sem íslenskir fjárfestar eiga samtals yfir 90 prósenta hlut. Þá er skuldsetning fjárfesta á markaðnum afar lítil og líklega nokkuð hóflegt mat að horfa til þess að 60 til 75 prósent af greiddum arði næsta árs skili sér í endurfjárfestingum og gæti það hæglega orðið hærra hlutfall. Síðustu mánuði hafa birst fréttir af ýmsum félögum sem stefna á skráningu á árinu 2022 og sé horft til þeirra greiðslna sem hluthafar geta átt von á bendir fátt til annars en að tímasetningin fyrir skráningu sé býsna góð,“ segir Gísli.

Margar nýskráningar í pípunum

Á meðal þeirra fyrirtækja, eins og Innherji hefur áður upplýst um, sem áforma skráningu í Kauphöllina hér á landi á næsta eru Ölgerðin, líftæknifyrirtækið Alvotech og Bluevest Capital, fjárfestingafélag í sjávarútvegi. Þá hefur lyfjafyrirtækið Coripharma verið með það til skoðunar að fara með félagið á markað á komandi ári.

Sé horft til þeirra greiðslna sem hluthafar geta átt von á bendir fátt til annars en að tímasetningin fyrir skráningu sé býsna góð.

Mikið fjárflæði til fjárfesta vegna arðgreiðslna og endurkaupa skráðu félaganna mun sömuleiðis styðja við áætlanir ríkisstjórnarinnar um að halda áfram að minnka við hlut sinn í Íslandsbanka. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er þannig gert ráð fyrir því að ríkið muni á þess ári stefna að því að selja um helminginn af þeim 65 prósenta hlut sem það fer með í dag en miðað við núverandi markaðsvirði bankans er slíkur hlutur metinn á liðlega 80 milljarða króna.

Þá eru taldar góðar líkur á því að íslenski hlutabréfamarkaðurinn verði færður upp um flokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell á næsta ári. Við það má búast við innflæði upp á tugi milljarða króna frá erlendum sjóðum sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við vísitölur fyrirtækisins, að mati Magnúsar Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar. „Ég tel góðar líkur á því að FTSE Russell færi Ísland upp um flokk á næsta ári,“ sagði hann samtali við Innherja fyrr í vikunni.

Fjárfestar vilja viðunandi arðgreiðslur

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, telur sennilegt að árið 2022 verði „metár“ í arðgreiðslum til hluthafa. Rétt eins og aðrir sérfræðingar sem Innherji leitaði til segir hann að það skýrist að hluta vegna einskipts söluhagnaðar hjá Símanum og Sýn, en önnur félög séu einnig með sterka stöðu og góða arðgreiðslugetu.

„Þá má einnig hafa það í huga,“ útskýrir Valdimar, „að fjárfestar og hluthafar eru í auknum mæli farnir að krefjast þess að fyrirtæki skili viðunandi arðgreiðslum og má leiða líkur að því að hið lága vaxtastig ýti undir áhuga á fastmótuðum arðgreiðslustefnum fyrirtækja. Ef efnahagsbatinn tekur áfram við sér með fjölgun ferðamanna á næsta ári og auknum umsvifum í hagkerfinu, og rekstur fyrirtækja í Kauphöllinni gengur áfram vel, þá er mjög líklegt að stór hluti leiti aftur inn á markaðinn, og hefur það verið þróun sem við höfum séð núna í ár.“

Kaup á eigin bréfum sækja í sig veðrið

Miklar útgreiðslur til hluthafa á árinu sem nú er að líða komu fyrst og fremst til vegna kaupa fyrirtækja á eigin bréfum en slík endurkaup, sem hafa aukist verulega í Kauphöllinni á síðustu árum, námu samtals 61 milljarði króna borið saman við aðeins 13 milljarða á árinu 2020. Frá 2015 nema endurkaup fyrirtækja í Kauphöllinni samanlagt yfir 170 milljörðum króna á meðan arðgreiðslurnar yfir sama tímabil eru samtals um 140 milljarðar.

Fjárfestar og hluthafar eru í auknum mæli farnir að krefjast þess að fyrirtæki skili viðunandi arðgreiðslum til hluthafa og má leiða líkur að því að hið lága vaxtastig ýti undir áhuga á fastmótuðum arðgreiðslustefnum fyrirtækja.

Rétt eins og arðgreiðslur eru kaup á eigin bréfum ein leið fyrir stjórnendur skráðu félaganna til að koma fjármunum sem þeir álíta vera umfram eigið fé í rekstrinum til hluthafa. Slík endurkaup fela í sér að félögin kaupa eigin bréf og afskrá þau síðan af markaði. Með því lækkar hlutafé félagsins og því eru færri bréf sem eiga tilkall til hagnaðar þannig að virði hvers hlutabréfs ætti að hækka í hlutfalli við þau sem eru tekin af markaði.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Stjórnendur Arion banka telji eigin bréf vanmetin

Arion banki hefur fengið heimild frá Fjármálaeftirlitinu til kaupa á eigin bréfum fyrir um 8 milljarða króna. Lektor í fjármálum segir þetta til marks um að þrátt fyrir miklar hækkanir á virði bréfa í bankanum, telji stjórnendur bréfin enn vanmetin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×