Umfjöllun: Stjarnan - Breiðablik 117-113 | Ótrúlegur endurkomusigur Stjörnunnar

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Stjarnan vann frábæran sigur
Stjarnan vann frábæran sigur Vísir/Bára Dröfn

Breiðablik hafði unnið síðustu þrjá leiki sína, síðast gegn Val og komu því fullir sjálfstrausti inni í leikinn. Stjarnan hafði hins vegar ekki átt neitt sérstaklega fallega sigra undanfarið en unnu þó sigur í síðasta leik gegn Vestra á útivelli.

Leikurinn byrjaði af gríðarlegum krafti og ljóst að gestirnir ætluðu ekki að breyta sínu leikplani neitt en liðið hefur spilað leiftrandi sóknarleik allt tímabilið. Stjarnan var aðeins hægari af stað og en náði fljótlega vopnum sínum og var ágætis jafnræði með liðunum í fyrsta leikhluta. Það virtist þó vera eins og Breiðablik ætti auðveldara með að finna sér góð skot. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 27-33 gestunum í vil og voru þeir Hilmar Pétursson og Everage Richardson sérstaklega góðir. Robert Turner dró vagninn fyrir heimamenn en hann átti heldur betur eftir að koma við sögu frekar í leiknum.

Í öðrum leikhluta dró frekar sundur með liðunum. Breiðablik hélt áfram að setja þriggja stiga skot en Stjarnan hélt sér inn í leiknum með því að skora þrjú stig í sóknum upp á gamla mátann. Skora, fá villu og svo skora úr vítinu. Shawn Hopkins var að setja mikilvægar þriggja stiga körfur í leikhlutanum fyrir Stjörnuna en Breiðablik leiddi enn í hálfleik, 57-62. Turner hjá Stjörnunni og Richardson hjá Breiðablik voru báðir með 19 stig í hálfleik.

Vísir/Bára Dröfn

Breiðablik kom svo frábærlega inn í þriðja leikhlutann og jók muninn strax í 15 stig. Turner hélt Stjörnunni inni í leiknum en Danero Thomas átti flottan leikhluta fyrir Breiðablik. Var öflugur í vörninni og var oft á tíðum eini Blikinn sem var að frákasta af viti. Breiðablik náði mest 18 stiga forystu og virtist allur vindur úr Stjörnunni þegar að Gunnari Ólafssyni var vikið af velli með tvær tæknivillur. Staðan eftir þrjá leikhluta var 80-91.

Fjórði leikhlutinn virtist einungis ætla að verða formsatriði fyrir Breiðablik en svo reyndist ekki vera. David Gabrovsek og Turner voru algerlega frábærir og minnkaði sá síðarnefndi muninn í 2 stig með frábærri þriggja stiga körfu þegar lítið var eftir af leiknum. Hann stal svo boltanum og jafnaði leikinn. Turner lokaði svo einfaldlega leiknum. Kópavogsbúarnir réðu ekkert við hann og Stjarnan fagnaði ótrúlegum sigri, 117-113 eftir að hafa verið undir gott sem allan leikinn.

Robert Turner var stórkostlegur í liði heimamanna með 43 stig, 11 fráköst og 4 stolna bolta. Þá var Shawn Hopkins með 25 stig. Hjá Breiðablik skoraði Everage Richardson 33 stig og Hilmar Pétursson 27. Með sigrinum er ljóst að Stjarnan er tveimur stigum á undan Breiðablik og í 8. sæti deildarinnar. Breiðablik er í því níunda.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.