Körfubolti

Daníel Guðni: „Þetta voru bara tvö góð lið að berjast og við unnum hérna í kvöld“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Daníel Guðni Guðmundsson var ánægður með sigurinn í kvöld.
Daníel Guðni Guðmundsson var ánægður með sigurinn í kvöld. Vísir/Bára

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindvíkinga, var að vonum sáttur með 95-91 sigur sinna manna gegn Íslandsmeisturum Þórs frá Þorlákshöfn í Subway-deild karla í kvöld.

„Mér fannst leikurinn vera í svona þokkalegu jafnvægi fyrstu 15 mínúturnar, en síðan missum við þá framúr okkur og þeir komast í sinn leik og í góðan takt og þá er erfitt að eiga við þá,“ sagði Daníel Guðni að leik loknum.

„Sérstaklega í þriðja leikhluta, þá fannst mér þeir skora allt of auðveldlega. En sömuleiðis þá vorum við að skora ágætlega í þriðja leikhluta fannst mér. Við skorum 26 stig en þeir 30 og mér finnst það aðeins of mikið.“

„Svo í fjórða leikhluta þá ákváðum við að breyta aðeins til varnarlega og það gekk bara upp. Við gerðum þetta bara saman og við gerðum þetta vel.“

Grindvíkingar áttu erfitt með að hemja Daniel Mortensen og Davíð Arnar Ágústsson í liði Þórsara, en Daníel segist vera ánægður með það hvernig lið hans náði að halda öðrum leikmönnum Íslandsmeistaranna í skefjum.

„Við vorum kannski ekki að setja mikið af þristum niður í fyrri hálfleik og það þarf bara alltaf eitthvað að gefa eftir. Daniel Mortensen var á eldi og Davíð Arnar líka en við náðum að halda hinum aðeins í skefjum. Sérstaklega [Luciano] Massarelli, og [Glynn] Watson var í held ég fimm stigum í fyrri hálfleik en var góður í seinni.“

„Þetta voru bara tvö góð lið að berjast og við unnum hérna í kvöld. Það er bara virkilega gaman að hafa náð því.“

Grindvíkingar mæta hinum Þórsurunum í næsta leik þegar liðið fer alla leið á Akureyri eftir áramót.

„Það verður að vera góður undirbúningur fyrir það verkefni. Maður veit reyndar ekkert hvort að maður er að fara í sóttkví eftir þennan leik eða hvað. Það er allur gangur á þessu.“

„En við verðum bara að vera tilbúnir í næsta verkefni og það þurfa allir að vera á sömu blaðsíðu og gera þetta bara saman og gera þetta vel,“ sagði Daníel að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.