Enski boltinn

Ótrúlegur fjöldi frestaðra leikja í efstu fjórum deildum Englands

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Daníel Leó Grétarsson er í byrjunarliði Blackpool í fyrsta sinn.
Daníel Leó Grétarsson er í byrjunarliði Blackpool í fyrsta sinn. Joe Prior/Visionhaus/Getty Images

Nú fyrir um hálftíma hófst leikur Huddersfield og Blackpool í ensku B-deildinni. Það væri kannski ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að Daníel Leó Grétarsson er í fyrsta skipti í byrjunarliði Blackpool og að þetta er einn af aðeins tveimur leikjum sem ekki var frestað vegna kórónuveirunnar.

Alls áttu að fara fram tíu leikir í ensku B-deildinni, en fyrir utan leik Huddersfield og Blackpool er leikur Middlesbrough og Nottingham Forrest eini leikurinn sem er spilaður.

Svipuð staða er uppi í neðri deildum Englands. Í C-deildinni verða fjórir af tíu leikjum spilaðir og í D-deildinni er búið að fresta níu af tólf leikjum dagsins.

Flestir aðdáendur enska boltans fylgjast að öllum líkindum mest með úrvalsdeildinni, en þar eru nú fjórir leikir í gangi af þeim níu sem áttu að vera spilaðir í dag. Tveir til viðbótar verða svo leiknir seinna í dag og í kvöld, en hinum þrem var frestað.

Fyrir þá sem hafa gaman af tölfræði þýðir þetta að tæplega 65 prósent af leikjum dagsins í efstu fjórum deildum Englands var frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×