Viðskipti innlent

Stjórn­völd ekki búin að bjarga málunum: „Stemningin er orðin frekar súr“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hljóðið er þungt í veitingamönnum á Íslandi vegna kórónuveirufaraldursins.
Hljóðið er þungt í veitingamönnum á Íslandi vegna kórónuveirufaraldursins. Vísir/Vilhelm

Samtök fyrirtækja í veitingarekstri fagna því að hlustað hafi verið á rekstraraðila en hafa áhyggjur af takmörkunum á opnunartíma veitingastaða. Klukkutíminn skipti verulegu máli í rekstrinum enda nær ómögulegt að ná inn tveimur hollum af gestum þegar veitingastöðum ber að loka klukkan níu.

Willum Þór Þórs­son heilbrigðisráðherra á­kvað fyrr í kvöld að veita veitinga­stöðum undan­þágu frá hertum sam­komu­tak­mörkunum á morgun, Þor­láks­messu. Áður stóð til að veitinga­staðir fengju að­eins að taka á móti tuttugu gestum í hverju rými en sam­kvæmt undan­þágunni fá veitinga­menn að taka á móti allt að fimm­tíu gestum í einu, í samræmi við fyrri takmarkanir. Takmörkun á opnunar­tíma helst þó ó­breytt og ber veitinga­stöðum að loka klukkan 21 í stað 22.

Veitingarekstur þungur róður í faraldrinum

Björn Árna­son, stjórnar­maður í Sam­tökum fyrir­tækja á veitinga­markaði, hefur verið í miklum sam­skiptum við heil­brigðis­ráðu­neytið í dag. Hann telur að hlustað hafi verið á gagn­rýni þeirra að ein­hverju leyti en ó­ráð­legt hafi verið að veita ekki undan­þágu frá skertum opnunar­tíma. 

„Við hefðum viljað fá þennan klukku­tíma í við­bót. Það er mjög erfitt fyrir veitinga­staði að tví­setja á kvöldi eins og á morgun þó að við séum með fimm­tíu manns inni. Það er þrengra um fólk inni á veitinga­stöðum þegar það eru fimm­tíu inni í staðinn fyrir tuttugu þannig að við héldum að [heil­brigðis­ráðu­neytið] myndi átta sig á þeim rökum,“ segir Björn.

Tekjurnar í desember skipti sköpum

Björn fagnar því þó að komið hafi verið til móts við rekstrar­­aðila en telur þetta ekki bjarga málunum. Tak­­markanir hafi verið í langan tíma og rekstur hafi verið erfiður í far­aldrinum. Desem­ber­­mánuður sé einn stærsti mánuður ársins í veitinga­­rekstri og jafnan ró­­legt yfir rekstrinum fyrstu mánuðina eftir ára­­mót. Tekjurnar í desember skipti veitinga­­menn sköpum.

„Stemningin er náttúru­lega orðin frekar súr yfir höfuð. Það er rúmur mánuður síðan tak­markanir voru hertar. Við höfum enn ekkert heyrt frá stjórn­völdum og hvað þau ætla að gera til að koma til móts við veitinga­geirann sem er frekar sorg­legt fyrir okkur. Fólk er orðið lang­þreytt,“ segir Björn Árna­son, stjórnarmaður í Sam­tökum fyrir­tækja á veitinga­markaði.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×