Innherji

Aðeins fimm prósent nýrra íbúðalána á breytilegum vöxtum

Hörður Ægisson skrifar
Ört vaxandi verðbólga og hækkandi vextir Seðlabankans hafa gert heimilin fráhverf því að sækjast eftir íbúðalánum á breytilegum vöxtum.
Ört vaxandi verðbólga og hækkandi vextir Seðlabankans hafa gert heimilin fráhverf því að sækjast eftir íbúðalánum á breytilegum vöxtum.

Heimilin hafa nánast alfarið sagt skilið við að taka íbúðalán á breytilegum vöxtum samtímis aukinni verðbólgu og væntingum um enn frekari vaxtahækkanir Seðlabankans á komandi misserum.

Ný íbúðalán til heimila að frádregnum uppgreiðslum námu ríflega 19,6 milljörðum króna í nóvember og stóðu nánast í stað á milli mánaða. Einungis einn milljarður króna voru lán á breytilegum vöxtum en restin, um 18,6 milljarðar, voru íbúðalán á föstum vöxtum. Ný íbúðalán á breytilegum vöxtum voru því fimm prósent af því sem bankarnir lánuðu alls til heimila í síðasta mánuði.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands um útlán í bankakerfinu en veiting nýrra íbúðalána á breytilegum vöxtum hefur ekki verið minni frá því í nóvember 2018.

Töluverð eftirspurn var eftir lánum með breytilegum vöxtum í vor – nettó ný útlán voru um 25 milljarðar króna í bæði apríl og maí – en síðan þá hefur veiting slíkra lána farið ört minnkandi.

Ummæli sem Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóri lét falla í hlaðvarpsþætti í sumar vöktu mikla athygli en þar ráðlagði hann fólki að festa vexti.

Heimilin halda áfram að sækja fyrst og fremst í óverðtryggð íbúðalán en nettó námu ný slík lán um 23 milljörðum króna í nóvember. Tæplega 80 prósent þeirra voru á föstum vöxtum. Þá héldu heimilin áfram að greiða upp verðtryggð íbúðalán en nettó voru ný slík lán neikvæð um liðlega fjóra milljarða í síðasta mánuði.

Ný útlán bankanna til atvinnufyrirtækja jukust um meira en fimm milljarða króna í nóvember. Frá því í ársbyrjun hafa lán til atvinnulífsins því aukist um 48 milljarða króna borið saman við aðeins tæplega átta milljarða króna á öllu árinu 2020.

Á aðeins örfáum mánuðum hefur Seðlabankinn hækkaði vexti úr 0,75 prósent í 2 prósent auk þess að hafa gripið til aðgerða á vettvangi fjármálastöðugleika- og fjármálaeftirlitsnefndar – hlutfall hámarks veðsetningar fasteignalána var lækkað í 80 prósent og eins settar reglur um 35 prósenta hámark á greiðslubyrði – í því skyni að reyna kæla fasteignamarkaðinn.

Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í síðustu viku og vísaði til versnandi verðbólguhorfa sem endurspegluðu einkum þrálátar alþjóðlegar verðhækkanir, hækkun launakostnaðar og aukna spennu í þjóðarbúinu.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,45 prósent á milli nóvember og desember, samkvæmt nýjum tölum sem Hagstofan birti í gær, og mælist tólf mánaða verðbólgan því nú 5,1 prósent – og hefur ekki verið meiri frá því sumarið 2012.

Í nýjum tölum um bankakerfið má einnig sjá vöxtur peningamagns virðist hafa stöðvast eftir að hafa aukist verulega á seinni hluta síðasta árs. Peningamagn og almennt sparifé (M2) minnkaði þannig um tæplega þrjá milljarða króna og var samtals 1.624 milljarðar króna í lok nóvember. Sé litið þrengri mælikvarða á peningamagni (M1) – sem inniheldur aðeins veltiinnlán – þá minnkaði það um 10 milljarða milli mánaða og var 805 milljarðar.

Í Peningamálum Seðlabankans sem birtust í nóvember var vakin athygli á þessari þróun og bent á að hraður vöxtur peningamagns í kjölfar farsóttarinnar einskorðist ekki við Ísland. Hann endurspegli þá miklu slökun á peningalegu aðhaldi sem víða var gripið til auk víðtækra stuðningsaðgerða stjórnvalda.

„Ársvöxtur peningamagns varð mestur um 14 prósent í nóvember í fyrra en frá þeim tíma hefur hægt á honum og mældist hann 8,1 prósent á þriðja fjórðungi ársins sem er svipaður vöxtur og á öðrum ársfjórðungi,“ sagði í peningamálum.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×