Atvinnulíf

„Á heimsvísu fjölgar giggurum stórkostlega“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Harpa Magnúsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Hoobla klasans segir fjölgun giggara í heiminum hreinlega byltingarkennda. Giggarar er fólk sem starfar sjálfstætt en nýleg rannsókn McKinsey sýnir að einn af hverjum sex starfsmönnum langar helst til að starfa sjálfstætt frekar en sem hefðbundinn launþegi. Fjarvinnan skapar ný tækifæri en eins er sístækkandi hópur sem vill geta stjórnað sínum tíma betur sjálfur. 
Harpa Magnúsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Hoobla klasans segir fjölgun giggara í heiminum hreinlega byltingarkennda. Giggarar er fólk sem starfar sjálfstætt en nýleg rannsókn McKinsey sýnir að einn af hverjum sex starfsmönnum langar helst til að starfa sjálfstætt frekar en sem hefðbundinn launþegi. Fjarvinnan skapar ný tækifæri en eins er sístækkandi hópur sem vill geta stjórnað sínum tíma betur sjálfur.  Vísir/Vilhelm

Árið 2020 var 33% vöxtur á giggstörfum á heimsvísu og samkvæmt rannsókn McKinsey myndi einn af hverjum sex starfsmönnum í hefðbundnu starfi helst vilja starfa sjálfstætt. Spár gera ráð fyrir gífurlega hröðum vexti gigg-hagkerfisins á næstu árum.

„Það má segja að það sé komin upp ný staða á vinnumarkaði. Við heyrum í fréttum að það sé mikil hreyfing á vinnumarkaði um þessar mundir og fólk er að skipta um störf, mögulega vegna þess að fjarvinnan í Covid hefur skapað betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs og það finnur að það vill í auknum mæli stjórna tíma sínum sjálft,“ segir Harpa Magnúsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Hoobla klasans, samfélag giggara á Íslandi.

Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um stöðu giggara: Á Íslandi og hvar mælingar sýna að best sé fyrir giggara að búa.

Störfin að breytast mjög hratt

Engar tölur eru til um þann fjölda fólks á Íslandi sem starfar sjálfstætt. Á heimsvísu segir Harpa fjöldinn þó talinn vera um 1,1 milljarður.

Þótt umræðan sé skammt á veg komin á Íslandi um þennan hóp fólks í atvinnulífinu, eru orðin giggari og gigg-hagkerfið smátt og smátt að festa sig í sessi.

Harpa horfir til tölfræðinnar erlendis frá til að skýra út, hversu hraður vöxtur gigg-hagkerfisins er.

„Þegar við skoðum gigg hagkerfið í heild sinni þá var 33% vöxtur á giggstörfum á heimsvísu á árinu 2020, sem er mun meiri vöxtur en vöxtur bandaríska hagkerfisins á árinu 2020.“

Þá segir hún Statista áætla að fyrir árið 2027 muni um helmingur bandarísku þjóðarinnar gigga að einhverju leyti.

„Í samantekt sem Forbes gerði kemur fram að í dag starfar 35% bandarísku þjóðarinnar að einhverju leyti sem giggarar. Þannig að út frá því má áætla að á næstu árum muni giggurum þar fjölga um 43% fram til ársins 2027,“ segir Harpa.

Hún segir Ísland þó ekki komin eins langt á veg með giggstörf og bandaríska þjóðin. Þá séum við einnig nokkuð á eftir í allri umræðu um réttindi giggara.

„Það er óþarfi fyrir verkalýðshreyfinguna að vera hrædd um að við Íslendingar séum að hverfa aftur til þeirra ára þar sem menn stóðu undir gafli við bryggjuna og vonuðust eftir vinnu þann daginn, upp á von og óvon. Atvinnulífið er gjörbreytt frá því sem var þá,“ segir Harpa og bætir við:

Heimurinn er orðinn að einu atvinnusvæði, störfin eru að breytast, stafræn þróun er á fleygiferð, við þurfum að vera samkeppnisfær og ef við ætlum að skapa verkefni og vinnu til framtíðar fyrir alla Íslendinga þá þurfum við að breyta hugsunarhættinum.“

Harpa segir algengt að vinnustaðir reyni að leysa úr málum með því að bæta þeim á það starfsfólk sem fyrir er. Það geti skapað álag fyrir fólk og aukið líkur á kulnun samhliða því að vinnustaðurinn fær ekkert endilega besta sérfræðinginn í verkefnið. Þá segir hún það oft jákvætt að starfsfólk fái að reyna við sig með nýjum verkefnum. En ef það er ekki af frumkvæði starfsmannsins að vaxa í nýjar áttir, sé betra að fá giggara í verkefnið. Hoobla aðstoðar vinnustaði við að finna ráðgjafa og sérfræðinga í ólík verkefni.Vísir/Vilhelm

Margt sem kyndir undir hraðan vöxt

Harpa segir ýmsar ástæður geta skýrt út, hvers vegna fjölgun giggara-starfa er jafn hröð og raun ber vitni.

Annars vegar sýna rannsóknir að stór hópur starfsfólks á vinnumarkaði hefur áhuga á að starfa sjálfstætt en eins eru fyrirtæki og stofnanir farin að sjá hagræði felast í því að ráða sérfræðinga í tímabundin störf og verkefni.

„Á heimsvísu fjölgar giggurum stórkostlega. Sem framkvæmdastjóri Hoobla, sem þjónustar bæði giggarana og vinnustaði sem leita eftir giggurum, þá kemur mér ekkert sérstaklega á óvart að fleiri vilji gigga, þar sem gigg verkefni hafa marga kosti í för með sér, bæði fyrir giggarann og þann sem kaupir þjónustu giggara,“ segir Harpa.

Þá bendir Harpa á áhrif heimsfaraldurs og stafrænnar þróunar:

„Svo hefur hugsanlega hræðsla vinnuveitenda við að ráða í full störf eftir faraldurinn, stafræn þróun og þörf fólks fyrir aukinn sveigjanleika áhrif á þennan óróleika að auki. En það er líka bara einhver bylgja í gangi.“

Harpa segir álag líka verið áhrifavald. Fólk sé meðvitaðra um það nú en áður, að vilja fækka streituvöldum.

„Á Íslandi leysum við oft mál með því að bæta fleiri höttum á fólk sem fyrir er á vinnustöðunum. Sú lausn getur skapað álag fyrir það fólk sem fær hattana og fyrirtækið er ekki endilega að fá besta sérfræðinginn í verkefnið. Það getur skapað aukna streitu og eykur þá hættu á kulnun. Auðvitað getur stundum hentað fólki að fá að reyna sig við ný verkefni. En ef það er ekki af frumkvæði starfsmannsins að vaxa í nýjar áttir og hann hefur ekki sérfræðikunnáttu á því sviði þá er betra að fá giggara í verkefnið.“

Hoobla

Harpa starfaði í 15 ár hjá ORF Líftækni en hætti þar í byrjun þessa árs. Hjá ORF Líftækni sinnti hún fjölbreyttum verkefnum fyrir fyrirtækið en síðustu fjögur árin starfaði hún þar sem mannauðsstjóri. 

Harpa er með B.Sc. í viðskiptafræði og M.Sc. í mannauðstjórnun en hún segir að þegar að hún hætti hjá ORF Líftækni í byrjun þessa árs, hafi hugur hennar fljótlega farið að velta fyrir sér möguleikum í sjálfstæðum rekstri.

„Þegar ég skoðaði hvað mér fannst vanta á markaðinn þegar ég starfaði sem mannauðsstjóri þá sá ég að það hefði verið frábært að geta leitað til aðila eins og Hoobla til að leysa tímabundin verkefni og verkefni sem voru mögulega í litlu starfshlutfalli, til dæmis að fá gæðasérfræðing í 25% hlutfall, fá upplýsingatæknisérfræðing í 10% hlutfall, fá markaðssérfræðing inn til að aðstoða í einn mánuð á álagstímum, geta leitað á einum stað að fyrirlesurum við hæfi, fundið á einum stað markþjálfa við hæfi og svo framvegis,“ segir Harpa og bætir við: „Með þessu móti hefði ég getað fengið þá sérfræðikunnáttu inn sem vantaði á þeim tíma sem vantaði án þess að skuldbinda fyrirtækið til lengri tíma. Það hefði sparað tíma og peninga á sama tíma og ég fengið þá sérþekkingu sem mér vantaði inn án mikillar skuldbindingar.“

Að sjá hversu hröð fjölgun er á gigg-störfum erlendis, hafði líka mikil áhrif á það að Harpa ákvað að stofna Hoobla.

„Þegar ég fór að skoða þá þróun sem er að eiga sér stað á heimsvísu sá ég að störf giggara eru í miklum vexti og þá taldi ég víst að störf giggara yrðu næsta bylting sem verður á vinnumarkaði. Ísland er ekkert öðruvísi en önnur lönd, við viljum vera samkeppnisfær á markaði og á meðan bæði fyrirtæki og einstaklingar búa yfir þeirri þörf að vera í stöðugum vexti þá þróast markaðurinn áfram. Þróunin er í þessa átt. Verkefnin eru að breytast, sum verkefni leggjast af og önnur verða til.“

Harpa segir Hoobla gagnast öllum tegundum vinnustaða, en þó sérstaklega smærri og milli stórum fyrirtækjum og fyrirtækjum í vexti.

„Þessir aðilar geta leitað til Hoobla, sér að kostnaðarlausu, og Hoobla aðstoðar við að finna rétta aðilann í verkefnið. Hoobla leitast við að bjóða fram fyrsta flokks sérfræðinga og tekur ávallt viðtöl við þá sérfræðinga sem sækjast eftir að starfa með Hoobla og leitar meðmæla eftir að verkefnum þeirra er lokið,“ segir Harpa.

Hoobla vinnur þó ekkert síður að því að efla tengslamyndun giggara.

„Þegar ég var með Hoobla á hugmyndastigi hitti ég marga sérfræðinga, stjórnendur og giggara til að skoða hvort það væri jarðvegur fyrir Hoobla og tilfinningin var þannig að ég fann að þetta var bara eitthvað sem ég varð að gera. Hugmyndin þróaðist áfram eftir því sem ég hitti fleira fólk og lendingin var að búa til klasa fyrir giggara. Klasinn væri þá styðjandi fyrir giggarana, styddi þá áfram við að fá verkefni, styddi þá áfram faglega, félagslega og markaðslega.“

Bylting í gangi á heimsvísu

Harpa mælir með því að atvinnulífið opni betur umræðuna um giggara og þá þróun sem er að eiga sér stað á vinnumarkaði um allan heim.

Umræðan er alltaf af hinu góða.

Sem dæmi nefnir hún sjónarmið mannauðsmála á vinnustöðum og stöðu giggara.

„Giggarar standa oft einir á báti, enginn sem stendur með þeim, þeir þurfa að gæta sinna réttinda sjálfir, hugsa um eigið bókhald og launatengdu gjöldum og félagslega geta þeir verið utan gátta á vinnustöðum. Það er ekki sjálfsagt að þeim sé til dæmis boðið á árshátíð fyrirtækja, jólapeysudag og svo framvegis.“

Þá segir hún margar þjóðir vera komnar mun lengra í umræðum um réttindi giggara.

„Víða erlendis eru stéttafélög og vinnustaðir farnir að gæta réttinda giggara og skv. bók Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur og Herdísar Pálu Pálsdóttur, Völundarhús tækifæranna, þá eru vinnustaðir jafnvel greiða launatengd gjöld og í orlofssjóð fyrir giggarana sína, meðal annars til að halda í góða giggara og geta þannig leitað til þeirra aftur ef ný verkefni koma upp. Þetta er eitthvað sem við ættum að skoða hér heima af fullri alvöru.“

Harpa segir líka mikilvægt að Ísland fylgi með í þeirri þróun sem nú er í gangi á heimsvísu.

„Það má alveg segja að það sé bylting í gangi á alþjóðlegum vinnumarkaði og gigg-senan og Hoobla eru partur af þeirri vegferð.“


Tengdar fréttir

Fullyrða að leiðtogaþjálfunin hafi bjargað fyrirtækinu frá gjaldþroti

Íslenskir stjórnendur eru of oft uppteknir við að slökkva elda og Ísland er töluvert á eftir öðrum þjóðum þegar kemur að leiðtogaþjálfun. Að mati Ingvars Jónssonar hjá Profectus má þó færa margvísleg rök fyrir því að leiðtogaþjálfun stjórnenda geti skipt sköpum á tímum sem þessum.

Hugmynd fyrir ári orðið að vinsælum Facebookleik

„Fyrir ári síðan, rétt þegar önnur COVID bylgjan var að skella á, fékk ég þessa flugu í kollinn á göngu í Elliðarárdal. Mér fannst einhvern veginn allt framundan vera svo undirlagt af alvarleika, mikil þyngsl í fólki, veturinn að koma og myrkrið á næsta leiti,“ segir Rúna Magnúsdóttir aðspurð um það hvernig Facebook-leikurinn Game of Boxes kom eiginlega til. Leikurinn stendur yfir í 21 dag og gengur út á að fólk virkjar ímyndunaraflið sitt til þess að brjótast út úr viðjum vanans og viðhorfum sem eru að hefta þau.

Giggstörfum fjölgar: Hafa frelsið til að velja sér lífstíl

„Nú er svo komið að mestur vöxtur er í slíkum störfum og atvinnurekendur segjast oft ekki fá fólk í ákveðin störf nema tímabundið og þeir sem gigga velja sér lífsstíl út frá verkefnum sínum,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands um þá þróun að sífellt fleira fólk kýs að starfa sjálfstætt á verktakasamningum, frekar en að ráða sig sem launþega. Árelía segir helsta gallann við giggið felast í því að fólk upplifir oft, sérstaklega í byrjun, meiri óvissu um tekjur. ,,Hins vegar sagði einn giggari í rannsókninni að „það að vera launþegi er fullkomið óöryggi.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.