Handbolti

Líkti Elínu Klöru við fyrirliða norska landsliðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekki leiðum að líkjast.
Ekki leiðum að líkjast. getty/Dean Mouhtaropoulos/vísir/hulda margrét

Svava Kristín Grétarsdóttir og sérfræðingar Seinni bylgjunnar gerðu upp fyrri hluta Olís-deildar kvenna í sérstökum jólaþætti í gær. Þar fóru þær meðal annars yfir bestu frammistöðu tímabilsins til þessa.

Elín Klara Þorkelsdóttir átti fullkominn leik fyrir Hauka gegn Stjörnunni þar sem hún fékk tíu í varnareinkunn, tíu í sóknareinkunn og tíu í aðaleinkunn hjá HB Statz. Enginn annar leikmaður í Olís-deildinni hefur fengið þrefalda tíu fyrir frammistöðu sína.

„Hún fíflaði þær hvað eftir annað, grjóthörð í vörn. Hún hefur vaxið svo gríðarlega, hún hefur tekið svo stórt skref,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested.

Sigurlaug Rúnarsdóttir hrósaði Elínu Klöru í hástert og sagði hana hafa bætt sig í þeim þáttum leiksins sem hún þurfti að bæta sig í.

„Hún er með geggjaðan sprengikraft. Það sem ég hafði áhyggjur af þegar maður sá hana fyrst í fyrra var að hún væri ekki með skot fyrir utan. Núna eru þau að koma og varnarleikurinn líka. Það er allt að koma hjá henni,“ sagði Sigurlaug.

Klippa: Seinni bylgjan - Besta frammistaða fyrri hlutans

Hún líkti Elínu Klöru við leikstjórnanda og fyrirliða norska landsliðsins, Stine Bredal Oftedal, einn besta leikmanns heims.

„Gæti hún ekki bara orðið okkar Stine Oftedal? Bæng! Ég er búin að horfa aðeins á norska landsliðið og hún minnir fáránlega á hana,“ sagði Sigurlaug.

Elín Klara og stöllur hennar í Haukum unnu Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs, 34-27, á laugardaginn í síðasta leik sínum fyrir jólafrí.

Haukar eru í 4. sæti Olís-deildarinnar með ellefu stig eftir tíu leiki.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×