Körfubolti

Hitinn frá Miami fór illa með Nautin og Stríðs­­mennirnir lágu í valnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joel Embiid gerði það sem þurfti til að stöðva Stephen Curry í nótt.
Joel Embiid gerði það sem þurfti til að stöðva Stephen Curry í nótt. Tim Nwachukwu/Getty Images

Golden State Warriors og Chicago Bulls töpuðu bæði í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en alls fóru sex leikir fram.

Miami Heat gjörsamlega kafsigldi Chicago Bulls í nótt. Leikur sem hefði átt að vera einkar spennandi var algjör einstefna og það má með sanni segja að Nautin frá Chicago hafi ekki höndlað Hitann frá Miami.

Miami – sem var án Jimmy Butler í nótt - vann leikinn með 26 stiga mun, 118-92.

Duncan Robinson var stigahæstur í liði Miami með 26 stig. Þar á eftir kom Dewayne Dedmon með 20 stig ásamt því að taka 12 fráköst. Tyler Herro var með 17 stig og Kyle Lowry 16 ásamt 14 stoðsendingum. Hjá Bulls var Zavh LaVine stigahæstur með 33 stig.

Golden State Warriors töpuðu aðeins sínum fimmta leik á tímabilinu í nótt er Stríðsmennirnir lágu í valnum eftir að hafa mætt Philadelphia 76ers. Leikurinn var einkar jafn framan af og Golden State leiddi með þremur stigum er síðasti fjórðungur hófst.

Þar fóru leikmenn 76ers hamförum á meðan ekkert gekk hjá Golden State, lokatölur 102-93 Philadelphia í vil.

Joel Embiid var stigahæstur hjá Philadelphia með 26 stig. Jordan Poole var stigahæstur hjá Warriors með 23 stig. Stephen Curry skoraði „aðeins“ 18 stig.

Í öðrum leikjum vann Denver Nuggets öruggan sigur á San Antonio Spurs, 127-112. Nikola Jokić var stigahæstur í liði Denver með 35 stig ásamt því að taka 17 fráköst og gefa 8 stoðsendingar.

Donavan Mitchell skoraði 28 stig í þægilegum sigri Utah Jazz á Washington Wizards, lokatölur 123-98. Rudy Gobert bætti við 20 stigum fyrir Jazz ásamt því að taka 11 fráköst. Þetta var sjöundi sigur Jazz í röð.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×