Handbolti

Jú, það eru líka skoruð sjálfs­mörk í hand­bolta: Sjáðu skondið sjálfs­mark í Olís

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði þrjú mörk í Eyjum, tvö mörk í rétt mark og eitt í vitlaust mark.
Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði þrjú mörk í Eyjum, tvö mörk í rétt mark og eitt í vitlaust mark. Vísir/Vilhelm

Seinni bylgjan fjallaði um elleftu umferð Olís-deildar karla í handbolta í síðasta þætti og þar á meðal um 78 marka leik ÍBV og HK í Vestmannaeyjum. Eitt af þessum 78 mörkum í leiknum var nefnilega mjög sérstakt mark.

„Það var eitt mjög ótrúlegt atvik í þessum leik. Það var skorað sjálfsmark. Það var furðulegt sjálfsmark, heldur betur. Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði þetta mark hérna,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar, og sýndi markið umrædda.

„Sjáið þetta. Þetta sér maður ekki á hverjum degi í handboltaleik,“ sagði Stefán. Það má sjá markið í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Skondið sjálfsmark í Vestmannaeyjum

Þeir sem halda að það séu bara skoruð sjálfsmörk í fótbolta vita betur eftir þennan mikla markaleik í Eyjum.

Hjörtur Ingi Halldórsson var að reyna að halda boltanum í leik og innan síns liðs en um leið og hann kastaði boltanum aftur fyrir sig þá var markvörður hans kominn of framarlega. Markvörðurinn missti af boltanum sem sigldi alla leið í mark, eigið mark.

„Þetta er ótrúlegt. Þetta er magnað,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar.

„Rúnar, þetta er eiginlega bara frábær afgreiðsla hjá honum,“ sagði Stefán Árni.

„Honum finnst þetta kannski leiðinlegt núna en eftir eitt til tvö ár þá hann bara eftir að vera stoltur af þessu,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar.

Eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir ofan þá rifjuðu Jóhann og Rúnar einnig upp annað sjálfsmark í efstu deild handboltans á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×