Innherji

Kvika ekki tapað krónu á uppgjöri vegna framvirkra samninga

Hörður Ægisson skrifar
Marinó Örn Tryggvason, forstjóra Kviku banka
Marinó Örn Tryggvason, forstjóra Kviku banka VÍSIR/VILHELM

Kvika hefur ekki þurft að taka á sig neitt fjárhagslegt högg vegna uppgjörs á framvirkum samningum sem bankinn hefur gert á undanförnum árum í tengslum við verðbréfaviðskipti hjá viðskiptavinum.

Þannig hafi Kvika ekki tapað krónu vegna slíkrar verðbréfafjármögnunar, þar sem fjárfestar annaðhvort skortselja eða taka gnóttstöðu í tilteknum hlutabréfa- eða skuldabréfaflokkum, jafnvel þegar úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um liðlega 30 prósent á örfáum vikum í upphafi kórónuveirufaraldursins í mars og apríl á árinu 2020.

Þetta kom fram í erindi Bjarna Eyvinds Þrastarson, framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Kviku, á fjárfestadegi bankans sem fór fram síðastliðinn föstudaginn. Þar fór hann meðal annars yfir umfang slíkra skiptasamninga sem bankinn hefði gert – þeir eru sagðir binda lítið eigið fé og geta gefið góða arðsemi – en umfang þeirra nemur í dag um 26 milljörðum króna.

Fjöldi virkra útistandandi samninga er yfir 490 talsins en að þeim standa hins vegar 85 viðskiptavinir hjá bankanum. Þá ná samningarnir, sem eru einkum vegna lántöku fjárfesta – stundum nefnd gírun – með því að nýta valréttar- og framvirka samninga, samtals til 41 ólíkra verðbréfaflokka.

Slík verðbréfafjármögnun er að stærstum hluta vegna hlutabréfaviðskipta – það hlutfall hefur aukist mjög síðustu mánuði og misseri – en fyrir um ári síðan var hún meira nýtt til viðskipta með ríkisskuldabréf og önnur útgefin skuldabréf.

Framvirkur samningur kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrirfram ákveðnum tíma. Fjárfestar þurfa jafnan ekki að leggja fram nema hluta þeirrar fjárhæðar sem fjárfest er fyrir - algengt er að hún sé um 25 prósent - og taka því lán fyrir mismuninum.

Fjárfestar hafa um nokkurt skeið, samtímis miklum verðhækkunum á gengi hlutabréfa í Kauphöllinni, aukið mjög framvirka samninga í því skyni að taka gnóttstöðu í tilteknum skráðum hlutabréfum á markaði. Á síðustu tveimur mánuðum, eins og sjá mátti í kynningu Bjarna Eyvinds á fjárfestadeginum, hefur hins vegar orðið nokkur breyting þar á og fjárfestar farnir að auka við skortstöður sínar í hlutabréfum miðað við þá framvirku samninga sem þeir hafa gert við Kviku banka.

Þótt það hafi færst í aukana á undanförnum árum að fjárfestar geti skuldsett sig fyrir hlutabréfa- og skuldabréfaviðskiptum krefjist bankarnir nú mun hærra hlutfalls eigin fjár en þekktist á árunum fyrir fjármálahrunið árið 2008. Þeir grípa einnig fyrr inn í ef skilyrðin fyrir lánveitingunni hafa verið brotin. Algengt er að fjárfestar þurfi að reiða fram örugga tryggingu sem nemur um fjórðungi af höfuðstól verðbréfanna.

Hækka arðsemismarkmið í 20 prósent

Á fjárfestadeginum kynnti Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, einnig þau sjö markmið sem bankinn hefði sett sér til næstu þriggja ára. Þau eru meðal annars þau að hækka arðsemismarkmið Kviku úr 15 prósent í 20 prósent og að bæta við sig 50 þúsund viðskiptavinum sem nota þrjár eða fleiri fjártæknilausnir hjá samstæðu bankans. Þar undir eru TM, Auður, Aur og Netgíró.

Þá kom einnig fram að TM, dótturfélag Kviku, ætlaði sér að auka markaðshlutdeild sína á tryggingamarkaði og sama á við um Kviku eignastýringu á sínum markaði. Marinó sagði jafnframt að hann vildi sjá Kviku ná sambærilegum kjörum á fjármögnun sinni og hinir bankarnir en í því skyni hefur Kvika meðal annars boðað útgáfu skuldabréfa í evrum í byrjun næsta árs.

Þá kom fram í máli Gunnars Sigurðssonar, sem stýrir dótturfélagi Kviku banka í Bretlandi, að stefnt væri að því að 20 prósent af hagnaði samstæðunnar myndi koma til vegna starfseminnar þar í landi.

Í lok síðasta mánaðar var tilkynnt um að Kvika hefði náð samkomulagi við hluthafa og stjórnendur breska lánafyrirtækisins Ortus Secured Finance um meginskilmála mögulegra kaupa bankans á meirihluta hlutafjár Ortus.

Í viðtali við Innherja fyrr í þessum mánuði sagði Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, að hann teldi þetta geta orðið „ein af farsælustu kaupum“ bankans.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Forstjóri Kviku: „Við erum rétt að byrja“

„Kvika hefur stækkað úr litlu félagi upp í eitt af stærstu félögum landsins. Þrátt fyrir það er markaðshlutdeild okkar lítil víða. Félagið er fjárhagslega sterkt og tækifærin til þess að auka samkeppni eru víða. Við erum rétt að byrja,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×