Innherji

Fjárlögin til marks um betri stöðu en víðast hvar í heiminum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarpið fyrir 2022
Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarpið fyrir 2022 VÍSIR/VILHELM

Nýtt fjármálafrumvarp varpar ljósi á það hversu vel Ísland stendur í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að efnahagsmálum. Greinendur sem Innherji ræddi við benda á að ríkissjóður hafi rúmt svigrúm til að fjármagna sig með öðrum leiðum en í gegnum peningaprentun Seðlabankans og að önnur ríki hafi þurft að grípa til stórfelldari aðgerða í ríkisfjármálum og peningamálum.

„Á Íslandi er enginn lengur að tala um fjármögnun á halla ríkissjóðs í gegnum peningaprentun Seðlabankans sem er til merkis um að okkar staða er töluvert betri en víðast hvar annars staðar,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka.

Afkoma ríkissjóðs batnar um 120 milljarða króna milli þessa árs og næsta árs og útlit er fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 66 milljörðum hærri árið 2022 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun síðastliðið vor.

Bætt staða skýrist einkum af verulegri aukningu tekna af tekjuskatti einstaklinga og tryggingagjaldi, auk þess sem tekjuskattur lögaðila skilar 16 milljörðum umfram það sem gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir gleðiefni að staða ríkissjóðs sé talsvert skárri á þessum tímapunkti en óttast var. Hún sé nokkuð sterk á alþjóðlegan mælikvarða

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

„Fyrir hagstjórnina almennt eykur þetta líkur á að ríkisfjármál og peningastefnan gangi þokkalega í takt,“ segir Jón Bjarki.

„Í samanburði við önnur lönd, þar sem hagstjórnaraðgerðir gegn faraldrinum eru talsvert stórtækari bæði hvað varðar halla á opinberum fjármálum og sögulegan slaka í peningamálum má kalla það býsna góðan árangur að hægt sé að slaka á bensínfætinum á þessum tímapunkti. Það veitir líka aukið svigrúm til viðbragða ef aftur skyldi síga á ógæfuhliðina í þróun faraldursins.“

Ef aðstæður á markaði verða afleitar og ekki finnast kaupendur að ríkisbréfum á ásættanlegri ávöxtunarkröfu, sem væru aðallega lífeyrissjóðir eða erlendir fjárfestar, þá er svigrúm ríkissjóðs gott til að fjármagna lánsfjárþörfina með öðrum leiðum.

Hrein fjármögnunarþörf ríkissjóðs á næsta ári nemur 117 milljörðum króna. Stefán Broddi segir þörfina minni en hann reiknaði með.

„Að mestu leyti virðist eiga að fjármagna þörfina með útgáfu ríkisbréfa,“ segir Stefán Broddi og bendir á að ríkissjóður geri hvorki ráð fyrir að fjármagna sig með lántökum frá ÍL-sjóði, sem áður hét Íbúðalánasjóður og hefur leikið stórt hlutverk í fjármögnun ríkissjóðs á þessu ári, né með því að nýta gjaldeyrisinnistæður ríkissjóðs í Seðlabankanum.

Skuldabréfamarkaðurinn tók nokkuð vel í fjárlagafrumvarpið en ávöxtunarkröfur ríkisskuldabréfa á lengri endanum, þ.e. til sjö og tíu ára, hafa lækkað um 9 punkta og 8 punkta það sem af er degi.

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka.

„Fljótt á litið, þá ættum við að sjá veglega útgáfu ríkisbréfa á þessu ári. Ef aðstæður á markaði verða afleitar og ekki finnast kaupendur á ásættanlegri ávöxtunarkröfu, sem væru aðallega lífeyrissjóðir eða erlendir fjárfestar, þá er svigrúm ríkissjóðs gott til að fjármagna lánsfjárþörfina með öðrum leiðum,“ segir Stefán Broddi.

Ríkissjóðir geti þannig gripið til þess að taka frekari lán hjá ÍL-sjóði eða nýta gjaldeyrisinnistæður sínar. Einnig er gert ráð fyrir töluverðum arðgreiðslum frá ríkisfyrirtækjum en Stefán segir að þær séu „hóflega áætlaðar“ í frumvarpinu.

Af eign ríkisins í viðskiptabönkunum tveimur er gert ráð fyrir ríflega 20 milljarða króna arðgreiðslu á árinu 2022 sem er 12,4 milljörðum meira en árið á undan og 7,4 milljörðum. umfram forsendur síðustu fjármálaáætlunar. Heildararðgreiðslur ríkisfyrirtækja geta numið tæplega 30 milljörðum á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Þá verður eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka seldur að fullu á næstu tveimur árum. Í hlutafjárútboði Íslandsbanka hélt ríkið eftir 65 prósenta hlut í bankanum en miðað við markaðsgengi Íslandsbanka í dag er hluturinn metinn á meira en 160 milljarða króna.

Í kjölfar heimsfaraldursins gerðu áætlanir ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs myndi hækka í 30 prósent undir lok ársins 2020. Forsendur gildandi fjármálaáætlunar gerðu ráð fyrir áframhaldandi skuldavexti árin 2021 og 2022, upp í um 42 prósent af vergri landsframleiðslu.

„Með öflugum viðsnúningi hagkerfisins stefnir hins vegar í að skuldastaða ríkisins verði mun betri,“ segir í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Nú eru horfur á að skuldir verði um 200 milljörðum króna lægri undir lok árs 2022 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun og nemi um 34 prósent af vergri landsframleiðslu í stað 42 prósenta.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.