Innherji

Stoðir fjárfesta í evrópsku SPAC-félagi sem var skráð á markað í Hollandi

Hörður Ægisson skrifar
Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, tekur sæti í fjárfestaráði hins nýja yfirtökufélags, SPEAR Investments. 
Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, tekur sæti í fjárfestaráði hins nýja yfirtökufélags, SPEAR Investments. 

Fjárfestingafélagið Stoðir var á meðal evrópskra hornsteinsfjárfesta sem komu að fjármögnun á nýju sérhæfðu yfirtökufélagi (e. SPAC), undir nafninu SPEAR Investments I, sem sótti sér 175 milljónir evra, jafnvirði um 26 milljarða íslenskra króna, í hlutafjárútboði sem kláraðist fyrr í þessum mánuði. Í kjölfarið var félagið skráð í Euronext kauphöllina í Amsterdam þann 11. nóvember síðastliðinn.

Hið nýstofnaða SPAC-félag, sem er átjánda slíka félagið sem er skráð á hlutabréfamarkað í Evrópu á þessu ári, áformar að fjárfesta í stöndugum evrópskum fyrirtækjum sem búa meðal annars yfir tækni- og nýsköpunarlausnum sem geta stutt við kröftugan og arðbæran vöxt þeirra, að því er fram kemur í skráningarlýsingu. Horft verður til fyrirtækja sem eru með markaðsvirði upp á 700 til 2.000 milljónir evra.  

Stoðir, sem eru umsvifamesta fjárfestingafélag landsins með um 50 milljarða króna í eigið fé, fjárfestu í SPEAR Investments fyrir um 5 milljónir evra, jafnvirði um 750 milljónir króna. Voru Stoðir í hópi tólf evrópskra fjárfestingafélaga sem voru hornsteinsfjárfestar í útboðinu og skuldbundu sig til að leggja SPEAR til samanlagt 40 milljónir evra við skráningu á markað í Hollandi.

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, hefur jafnframt tekið sæti í tíu manna fjárfestingaráði SPEAR eftir fjárfestingu félagsins.

Þeir sem höfðu umsjón með skráningu og fjármögnun SPEAR voru evrópsku ráðgjafafyrirtækin STJ Advisors og AZ Capital. STJ Advisors voru meðal annars fjármálaráðgjafar Bankasýslunnar þegar íslenska ríkið stóð að sölu á 35 prósenta hlut í Íslandsbanka fyrir 55 milljarða í gegnum almennt hlutafjárútboð og skráningu á hlutabréfamarkað í júní á þessu ári. Þá voru STJ Advisors sömuleiðis ráðgjafar Marels í tengslum við útboð og skráningu fyrirtækisins á markað í Amsterdam árið 2019.

Stjórnendur Stoða eru heldur ekki ókunnugir STJ Advisors. Félagið var ráðgjafi við skráningu evrópska drykkjarvöruframleiðandans Refresco Gerber í Euronext kauphöllina í Amsterdam, en Stoðir voru stór hluthafi í fyrirtækinu og Jón sat í stjórn þess um margra ára skeið, og eins í kjölfarið við sölu á öllum hlut íslenska fjárfestingafélagsins í Refresco.

Stoðir, sem eru nánast alfarið í eigu einkafjárfesta og verðbréfasjóða, hafa að undanförnu staðið að ýmsum nýjum fjárfestingum. Auk þess að koma að fjármögnun á SPAC-félaginu SPEAR þá keyptu Stoðir í lok ágúst um 6,2 prósenta eignarhlut Helga Magnússonar, aðaleigenda útgáfufélags Fréttablaðsins, í Bláa lóninu fyrir vel á fjórða milljarð króna jafnframt því að fjárfesta í Landeldi í síðasta mánuði sem tryggði Stoðum þriðjungshluta í fiskeldisfyrirtækinu.

Hið nýstofnaða SPAC-félag, SPEAR Investments, er átjánda slíka félagið sem er skráð á hlutabréfamarkað í Evrópu á þessu ári.

Þá upplýsti Innherji um það síðastliðinn fimmtudag Stoðir, sem höfðu verið stærsti hluthafi Kviku frá því undir lok ársins 2020, hefði á innan við tveimur vikum minnkað hlut sinn í bankanum um næstum þriðjung. Eignarhlutur Stoða í Kviku nemur nú 6,1 prósenti – hann var áður um 8,7 prósent – og er félagið í dag þriðji stærsti hluthafi bankans á eftir Lífeyrissjóði verslunarmanna og LSR. Ætla má að Stoðir hafi selt hlutabréf sín í Kviku fyrir samanlagt um 3,5 milljarða króna á tímabilinu.

Frá því að greint var frá sölu Stoða hefur hlutabréfaverð Kviku lækkað um 6 prósent og stóð í 26,6 krónum á hlut við lokun markaða í gær. Markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar Stoða í Kviku nemur í dag tæplega átta milljörðum króna.

Eigið fé hækkað um 16 milljarða á árinu

Stoðir eru stærsti jafnframt hluthafi Símans, sem er að selja dótturfélag sitt Mílu til franska sjóðsins Ardian fyrir 78 milljarða króna, auk þess að vera umsvifamesti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka með rúmlega 4,7 prósenta hlut. Þá voru Stoðir einnig á meðal leiðandi fjárfesta við stofnun flugfélagsins Play fyrr á þessu ári og halda í dag utan um liðlega 6,4 prósenta eignarhlut. Eigið fé Stoða hækkaði um liðlega 16 milljarða á fyrstu níu mánuðum þessa árs samtímis miklum verðhækkunum á skráðum fjárfestingaeignum félagsins.

Langsamlega stærsti eigandi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með 56 prósenta hlut. Þeir sem standa að því félagi eru meðal annars Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og stjórnarformaður Símans, Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og stjórnarformaður Play, og Örvar Kjærnested, fjárfestir.

Aðrir helstu hluthafar Stoða eru sjóðir í stýringu Stefnis, sem fara samanlagt með um 11 prósenta hlut, og félagið Mótás sem á tæplega 6 prósenta hlut.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×