Innherji

Stærsti hluthafinn selur um þriðjung bréfa sinna í Kviku banka

Hörður Ægisson skrifar
Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, sem er umsvifamesta fjárfestingafélag landsins.
Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, sem er umsvifamesta fjárfestingafélag landsins.

Fjárfestingafélagið Stoðir, sem hefur verið stærsti hluthafi Kviku frá því undir lok síðasta árs, hefur á innan við tveimur vikum minnkað hlut sinn í bankanum um næstum þriðjung.

Eignarhlutur Stoða í Kviku, samkvæmt heimildum Innherja, nemur nú 6,3 prósentum – hann var áður um 8,7 prósent – og er félagið í dag þriðji stærsti hluthafi bankans á eftir Lífeyrissjóði verslunarmanna og LSR.

Ætla má að Stoðir, sem eru umsvifamesta fjárfestingafélag landsins með nálægt 50 milljarða í eigið fé og meðal annars stór í hluthafi Símanum og Arion banka, hafi selt hlutabréf sín í Kviku fyrir samanlagt um 3,5 milljarða króna á tímabilinu. Félagið hefur minnkað hlut sinn úr 425 milljónum hluta að nafnverði í 300 milljónir hluta.

Ákvörðun Stoða, sem er nánast alfarið í eigu einkafjárfesta og verðbréfasjóða, um að selja verulegan hluta bréfa sinna í Kviku banka kemur á sama tíma og félagið hefur að undanförnu verið að ráðast í fjárfestingar í nýjum atvinnugreinum. Þannig keyptu Stoðir í lok ágúst um 6,2 prósenta eignarhlut Helga Magnússonar, aðaleigenda útgáfufélags Fréttablaðsins, í Bláa lóninu fyrir meira en þrjá milljarða króna auk þess að fjárfesta í Landeldi í síðasta mánuði sem tryggði Stoðum þriðjungshluta í fiskeldisfyrirtækinu.

Hlutabréfaverð Kviku, sem hefur hækkað um 63 prósent á árinu, stóð í 28,2 krónum á hlut við lokun markaða í gær. Markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar Stoða í bankanum nemur í dag um 8,5 milljörðum króna.

Samkvæmt heimildum Innherja byrjuðu Stoðir að losa um hlut sinn í bankanum fimmtudaginn 11. nóvember síðastliðinn. Þá seldi félagið verulegt magn af bréfum í byrjun þessarar viku þegar stór viðskipti voru í Kviku fyrir opnun markaða á þriðjudag upp á samtals um 1.360 milljónir króna.

Eigið fé hækkað um 16 milljarða á árinu

Fjárfestingafélagið hóf að byggja upp stöðu í Kviku banka á árinu 2020, ekki í eigin nafni heldur í gegnum framvirka samninga, en Stoðir voru þá meðal annars stærsti hluthafi TM. Í lok september sama ár var tilkynnt um að stjórnir Kviku og tryggingafélagsins hefðu samþykkt að hefja formlegar viðræður um sameiningu. Þegar samruni Kviku og TM kláraðist í lok mars á þessu ári voru Stoðir stærsti hluthafi sameinaðs félags með meira en níu prósenta hlut.

Hlutabréfaverð Kviku banka hefur hækkað um 63 prósent frá áramótum og markaðsvirði bankans stendur í 138 milljörðum króna.

Þrátt fyrir að vera stærsti hluthafinn frá sameiningu hafa Stoðir ekki haft á að skipa neinum fulltrúa í stjórn Kviku sem er fjárhagslega tengdur fjárfestingafélaginu.

Stoðir eru stærsti hluthafi Símans, sem er að selja dótturfélag sitt Mílu til franska sjóðsins Ardian fyrir 78 milljarða króna, auk þess að vera umsvifamesti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka með rúmlega 4,7 prósenta hlut. Þá voru Stoðir einnig á meðal leiðandi fjárfesta við stofnun flugfélagsins Play fyrr á þessu ári og halda í dag utan um liðlega 6,4 prósenta eignarhlut. Eigið fé Stoða hækkaði um liðlega 16 milljarða á fyrstu níu mánuðum þessa árs samtímis miklum verðhækkunum á skráðum fjárfestingaeignum félagsins. 

Langsamlega stærsti eigandi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með 56 prósenta hlut. Þeir sem standa að því félagi eru meðal annars Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og stjórnarformaður Símans, Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og stjórnarformaður Play, og Örvar Kjærnested, fjárfestir.

Aðrir helstu hluthafar Stoða eru sjóðir í stýringu Stefnis, sem fara samanlagt með um 11 prósenta hlut, og félagið Mótás sem á tæplega 6 prósenta hlut.

Nálægt 40 prósenta arðsemi

Rekstur Kviku banka hefur gengið afar vel á síðustu ársfjórðungum. Hagnaður samstæðunnar, þar sem afkoma TM og Lykils fjármögnunar á árinu er tekin með í reikninginn, á fyrstu níu mánuðum þessa árs var samtals 9.375 milljónir króna og var arðsemi á eigið fé um 36 prósent. Uppfærð afkomuspá gerir ráð fyrir að hagnaður þessa árs verði á bilinu 11,3 til 11,8 milljarðar.

Í lok síðasta mánaðar var tilkynnt um að Kvika hefði náð samkomulagi við hluthafa og stjórnendur breska lánafyrirtækisins Ortus Secured Finance um meginskilmála mögulegra kaupa bankans á meirihluta hlutafjár Ortus. Á meðal hluthafa Ortus í dag eru Stoðir með 30 prósenta hlut.

Í viðtali við Innherja fyrr í þessum mánuði sagði Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, að hann teldi þetta geta orðið „ein af farsælustu kaupum“ bankans.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Forstjóri Kviku: „Við erum rétt að byrja“

„Kvika hefur stækkað úr litlu félagi upp í eitt af stærstu félögum landsins. Þrátt fyrir það er markaðshlutdeild okkar lítil víða. Félagið er fjárhagslega sterkt og tækifærin til þess að auka samkeppni eru víða. Við erum rétt að byrja,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.