Skoðun

Við­brunnar kosningar

Indriði Stefánsson skrifar

Þegar grauturinn brennur við er sama hverju við hann er bætt, hann er ónýtur og annað hvort verður að byrja upp á nýtt og vanda sig betur eða borða graut með brunabragði.

Það hljóta allir að vera sammála um að framkvæmd talningar í Borgarnesi var fráleit. Lítið er um bókanir í gerðarbók, varðveisla kjörgagna var ófullnægjandi, umboðsmenn höfðu takmarkaða aðkomu og margt fleira. Það voru bókstaflega framin lögbrot. Kannski sýnir niðurstaðan vilja kjósenda - en við getum ekki fullvissað okkur um það. Enginn veit hverjar lokatölurnar úr kjördæminu eru. Eins og viðbrunninnin grautur bragðast illa, skilja niðurstöður kosninga sem byggja á ónýtri framkvæmd eftir óbragð í munni.

Þegar grauturinn brennur við verður það stundum viðleitni að reyna að bjarga málinu. Ef strax er hafist handa við að einangra viðbrunna hlutann og tryggja að það verði ekki samblöndun getur það heppnast. Það var að sjálfsögðu það sem átti að gerast. Þegar lá fyrir að mistök urðu og atkvæðin mögulega rangt talin átti að einangra vandann og tryggja að hann eitraði ekki alla niðurstöðuna úr Norðvesturkjördæmi.

En viðbrögðin voru alls ekki til þess fallin að einangra vandann. Reyndar voru þau frekar til að auka á hann, ef eitthvað er. Margfalt betra hefði verið að tryggja heilindi ferlisins í samráði við alla aðila. En það var ekki gert og fyrir vikið er niðurstaðan viðbrunnin, þar sem öllu hefur verið blandað saman. Engin leið að skilja á milli þess sem er rétt gert, þess sem er rangt gert né hvaða áhrif það hafði að gera hlutina rangt.

Nú er búið að reyna ýmislegt, hræra inn alls konar lögræðiálitum, krydda með túlkunum á kosningalögum og ýmsu fleiru. Ekkert af þessu leysir hins vegar vandann. Að bæta einhverju við viðbrunna niðurstöðu breytir engu, hún er ennþá viðbrunnin. Eina raunverulega lausnin er að átta sig á hvers vegna allt brann við, leysa úr því vandamáli og byrja upp á nýtt. Við Píratar lögðum þá lausn til en henni var hafnað. Við studdum og lögðum til aðrar lausnir sem gengu skemmra til að minnka skaðann en þeim var líka hafnað.

Nú liggur fyrir að viðbrunninn grauturinn er kominn á borðið og verður á boðstólnum fram að næstu kosningum. Ekki spá of mikið í svörtu flyksunum, þær eru sennilega rúsínur.

Höfundur er varaþingmaður Pírata.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.