Skoðun

Af hverju er þetta ekki í lagi?

Sandra B. Franks skrifar

Allir íbúar þessa lands njóta góðs af öflugri bráðamóttöku Landspítalans. Að sama skapi bitnar það á okkur öllum þegar ríkir neyðarástand á bráðamóttökunni. Nú hefur hver starfsstéttin á fætur annarri lýst ástandinu fyrir þjóðinni og stjórnvöldum sem skelfilegu.

Þegar öryggi sjúklinga og velferð þeirra er stefnt í hættu verða stjórnvöld að hlusta. Sjúkraliðar, læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk er sammála að ástandið á bráðamóttöku er óboðlegt.

Bráðamóttakan kostar 0,5%!

Árlegur rekstarkostnaður bráðamóttökunnar er um 5 milljarða kr. Það er minna en 0,5% af árlegum útgjöldum ríkisins. Getum við ekki verið sammála um að tíunda ríkasta þjóð í heimi ætti að geta rekið bráðamóttöku svo sómi sé að? Getum við ekki byrjað á þeirri einingu sem tekur á móti fólki í bráðri hættu?

Allur almenningur á Íslandi vill það og hafa allir stjórnmálaflokkar landsins talað fyrir slíkum aðgerðum. Fyrst og fremst vantar meira fjármagn til að tryggja nauðsynlega mönnun og flæði innan spítalans. Um helmingur útskrifaðra sjúkraliða starfa við fagið og um fjórðungur nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga hverfa til annarra betur launaðra starfa innan fimm ára. Þessi staðreynd er óhagkvæm fyrir samfélagið sem hefur í gegnum árin viðhaldið aðgreiningu kynjanna á vinnumarkaði og stutt þannig við kynbundinn launamun. Viðvarandi vanmat á vinnuframlagi þar sem konur eru í meirihluta ýtir undir flótta þeirra úr störfum.

Nú er lag að laga

Um daginn skrifaði yfirlæknir á skurðsviði Landspítalans eftirfarandi: „Lausnin á bráðavanda Landspítala felst nefnilega aðallega í umtalsvert bættum launakjörum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sérstaklega á gjörgæsludeildum og bráðamóttöku. Þannig verður unnt að fá aftur til starfa fullmenntað starfsfólk sem leitað hefur í önnur störf utan spítalans“. Hægt er að taka undir þessi orð. Og nú er tækifæri til að bregðast við þessum vanda því ekki er enn búið að leggja fram fjárlagafrumvarp næsta árs.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá ber að bregðast við þegar sjúklingar fá ekki þá faglegu aðstoð sem þeim ber samkvæmt lögum. Þegar sjúklingum er stefnt í hættu á bráðamóttöku Landspítalans ríkir neyðarástand. Lögum þetta, í þágu okkar allra.

Formaður Sjúkraliðafélags Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×