Viðskipti innlent

Faraldurinn hafi ekki jafn mikil áhrif og áður á hegðun Íslendinga

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Birgir Jónsson, forstjóri Play, gerir ráð fyrir að ferðamönnum muni aðeins fjölga á næstunni. 
Birgir Jónsson, forstjóri Play, gerir ráð fyrir að ferðamönnum muni aðeins fjölga á næstunni.  Vísir/Vilhelm

Núverandi bylgja faraldurins virðist ekki hafa mikil áhrif á hegðun ferðamanna og er lítið um afbókanir þrátt fyrir uppsveiflu í fjölda smitaðra. Forstjóri Play segir það sérstaklega eiga við um Íslendinga sem voru óöruggir í sumar þegar fjórða bylgja faraldursins reið yfir en þeir eru nú rólegri og yfirvegaðri.

Þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn sé í uppsveiflu víða leita erlendir ferðamenn í auknum mæli til Íslands og má segja það sama um Íslendinga sem ferðast til útlanda. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að um sé að ræða breytingu frá fyrri bylgjum faraldursins, þá helst þegar kemur að hegðun Íslendinga.

„Þessi bylgja sem að við erum að horfa á núna er öðruvísi en bylgjan sem sem við sáum í sumar þar sem það virtist koma meira óöryggi inn á markaðinn og fólk var seinka og breyta ferðum í talsverðum mæli, sérstaklega Íslendingar reyndar ekki mikið um erlenda ferðamenn, en við erum ekki að sjá þessa hegðun núna,“ segir Birgir.

Hann segir markaðinn stöðugan að svo stöddu. Ljóst er að fólk er ekki að láta þróunina raska sínum ferðaáætlunum jafn mikið og fyrr í faraldrinum.

„Sem er auðvitað bara mjög jákvætt held ég. Ég held að fólk sé að átta sig á því að þetta sé eitthvað sem við þurfum að lifa með og lífið verður að halda áfram,“ segir Birgir.

Nýgengi smita hér á landi hefur aldrei verið hærra og reglulega er met slegið í fjölda einstaklinga sem greinast með veiruna. 

Birgir segir að þrátt fyrir slæma stöðu þá sé fólk nú yfirvegaðara og farið að átta sig á því að um sé að ræða nýjan veruleika, frekar en bara tímabil. Þá gerir hann ráð fyrir að ferðamönnum muni aðeins fjölga á komandi mánuðum.

„Við horfum á þessi gögn bara dag frá degi og það er ekkert í þessu sem að gefur okkur neitt annað til kynna, bara þvert á móti, við sjáum bara aukna sölu og aukna nýtingu og ég held að það sé bara það sem maður heyrir í ferðaþjónustunni almennt séð, að það sé bara mjög mikil eftirspurn,“ segir Birgir.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×