Handbolti

Telur Ómar Inga besta leikmanninn í Þýskalandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skorar eitt níu marka sinna gegn Füchse Berlin.
Ómar Ingi Magnússon skorar eitt níu marka sinna gegn Füchse Berlin. getty/Florian Pohl

Stefan Kretzschmar, fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands, telur Ómar Inga Magnússon vera besta leikmann þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.

Ómar Ingi skoraði níu mörk þegar Magdeburg vann Füchse Berlin, 33-29, í toppslag í þýsku deildinni á laugardaginn. Selfyssingurinn er markahæsti leikmaður deildarinnar með 74 mörk. Magdeburg er með fullt hús stiga á toppnum.

Í viðtali fyrir leikinn gegn Füchse Berlin sagði Kretzschmar að enginn leikmaður í þýsku deildinni stæði Ómari Inga framar. „Að mínu áliti er Ómar Ingi Magnússon besti leikmaður deildarinnar,“ sagði Kretzschmar. Handbolti.is vakti athygli á ummælum hans.

„Magdeburg er með besta lið Þýskalands um þessar mundir. Liðið leikur frábærlega og samleikur liðsins er nær fullkominn með Ómar Inga innanborðs,“ sagði Kretzschmar jafnframt.

Hann lék með Magdeburg á sínum tíma, meðal annars undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Eftir að ferlinum lauk hefur Kretzschmar getið sér gott orð sem sérfræðingur í sjónvarpi. Hann starfar einnig fyrir Füchse Berlin.

Ómar Ingi kom til Magdeburg frá Álaborg í fyrra og var markakóngur þýsku deildarinnar á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Magdeburg endaði í 3. sæti þýsku deildarinnar á síðasta tímabili og vann EHF-bikarinn. Þá unnu Ómar Ingi og félagar heimsmeistarakeppni félagsliða í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×