Körfubolti

Pétur: Þetta var jafn leikur og við töpuðum, ekki flóknara en það

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pétur Ingvarsson þjálfari Breiðabliks var svekktur eftir tapið gegn Þór í kvöld.
Pétur Ingvarsson þjálfari Breiðabliks var svekktur eftir tapið gegn Þór í kvöld. Vísir / Bára

„Þetta er allavega í síðasta skipti sem þetta gerist,“ sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Breiðabliks eftir að liðið tapaði, 104-102 gegn Þór frá Þorlákshöfn í jöfnum spennuleik í Subway-deildinni í körfuknattleik í kvöld.

Þetta er í fjórða sinn sem Blikaliðið dregur stutta stráið í jöfnum leikjum liðsins í vetur og það er það sem Pétur á við með orðum sínum. Leikurinn í kvöld var frábær skemmtun og sóknarleikur í hávegum hafður.

Breiðablik fékk tækifæri í lokin til að tryggja sér sigurinn og tóku leikhlé þegar tæpar tíu sekúndur voru eftir á klukkunni. Everage Richardsson gerði vel í að búa til skot fyrir Danero Thomas en skotið geigaði um leið og flautan gall.

„Við vildum koma boltanum fljótt inn og svo þurfti einhver að búa til eitthvað fyrir liðið. Þetta var ágætis sókn. Everage sótti á körfuna, vörnin féll niður og Danero fékk opið skot en bara setti það ekki niður. Þetta eru þessi 33%,“ sagði Pétur.

„Þriggja stiga skot er 33% að meðaltali ofan í körfuna. Þetta er bara hluti af leiknum, við vorum að spila fínustu vörn á löngum köflum í þessum leik og þeir spila líka hörkuvörn. Þetta var jafn leikur og við töpuðum honum, það er ekki flóknara en það.“

Þórsarar byrjuðu leikinn betur en Breiðablik skoraði 39 stig í öðrum leikhluta og kom sér á ný inn í leikinn.

„Við byrjuðum þetta bara flatt og þeir af krafti. Þeir settu skot á meðan við klikkuðum. Í öðrum leikhluta snerist þetta við en þeir settu einu fleira skot niður en við í dag og það er munurinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×