Verð á grænmetisolíum hefur náð methæðum eftir nærri tíu prósenta hækkun í október og kornmeti farið upp um meira en 22 prósent á einu ári. Þar spilar verð á hveiti stórt hlutverk sem hefur hækkað um nærri 40 prósent á síðustu tólf mánuðum eftir dræma uppskeru í stórum útflutningslöndum á borð við Kanada, Rússland og Bandaríkin.
Þá hafa framleiðslu- og flutningstruflanir, hærra hrávöruverð, verksmiðjulokanir og stjórnmálaspenna átt þátt sinn í því að hækkun matarkörfunnar, að sögn FAO.
„Hvað varðar kornvörurnar, þá er hægt að segja að það séu í raun loftslagsbreytingar sem eru að leiða til misheppnaðrar uppskeru,“ segir Peter Batt, sérfræðingur í landbúnaðarviðskiptum við Curtin-viðskiptaháskólann, í samtali við BBC.
„Við höfum séð frekar slæma uppskeru síðustu ár á mörgum stöðum.“
Heimsfaraldurinn haft sitt að segja
FAO segir að vísitala grænmetisolía hafi leitað upp á við þökk sé verðhækkunum á pálmakjarna-, soja- og sólblóma- og repjuolíum. Í tilfelli pálmakjarnaolíunnar hefur viðvarandi skortur á farandverkamönnum í Malasíu ýtt undir hækkanir.
Sömuleiðis hefur starfsmannaskortur aukið framleiðslu- og flutningskostnað í öðrum heimshlutum. Að sögn FAO hefur heimsfaraldurinn haft mikil áhrif á skipaflutninga og flutningsraskanir meðal annars ýtt upp verði á mjólkurvörum sem hefur hækkað um nærri 16 prósent á síðastliðnu ári.