Körfubolti

Haukar frumsýna nýjan bandarískan leikmann í Evrópuleiknum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Magnússon ræðir við hina bandarísku Haiden Palmer sem hefur ekki skorað nógu mikið í Evrópuleikjunum í vetur.
Bjarni Magnússon ræðir við hina bandarísku Haiden Palmer sem hefur ekki skorað nógu mikið í Evrópuleikjunum í vetur. Vísir/Bára Dröfn

Haukakonur hafa sótt sér liðstyrk frá Bandaríkjunum en framherjinn Briana Gray er komin með leikheimild hjá FIBA og getur því tekið þátt í Evrópuleiknum á Ásvöllum í kvöld.

Haukarnir mæta tékkneska liðinu Brno klukkan 19.30 í kvöld og þetta ætti að vera auðveldara verkefni en þegar Haukaliðið tapaði stórt í fyrsta heimaleik sínum í riðlinum. Helena Sverrisdóttir, fyrirliði Hauka, glímir við meiðsli og mun Gray hjálpa Hafnarfjarðarliðinu í þessum krefjandi leik.

Briana Gray er 26 ára gömul og spilar sem lítill framherji. Hún byrjaði þetta tímabil með Sparta í Lúxemborg þar sem hún var með 12,0 stig, 6,8 fráköst og 1,5 stoðsendingar í leik.

Svava Kristín Grétarsdóttir ræddi við Bjarna Magnússon um nýja leikmanninn í gær en hún mun vera með Haukaliðinu næstu tvo mánuði í Evrópukeppninni þar sem spila má með fleiri bandaríska leikmenn en hér heima.

Briana Gray á æfingu með Haukum í gær.Skjámynd/S2 Sport

„Þetta er geggjaður leikmaður. Undirbúningsvinnan var ekki eins mikil og vanalega þegar við erum að leita að erlendum leikmönnum. Þær heimildir sem við höfum fengið þá sjáum við að þetta sé stelpa sem er búin að spila í Evrópu í nokkur ár og er með reynslu,“ sagði Bjarni Magnússon.

„Þetta er týpa af leikmanni sem við teljum okkur vanta svolítið. Hún er árásagjörn á körfuna og góð á báðum endum vallarins. Hún getur spilað margar stöður og við erum bjartsýn að hún geti aðstoðað okkur í þessu,“ sagði Bjarni.

Briana Gray lék með Torpan Pojat í Finnlandi tímabilið 2018-19 og var þar með 8,7 stig, 5,0 fráköst og 1,7 stoðsendingar í leik. Í rúmensku deildinni 2019-20 var hún með 19,3 stig, 9,3 fráköst og 3,0 stoðsendingar að meðaltali með liði CS Municipal Alexandria.

Gray hefur einnig spilað í Portúgal, Úkraínu og Ástralíu síðan hún útskrifaðist úr Weber State árið 2018.

Á síðasta ári sínu í háskólaboltanum með Weber State var hún með 8,0 stig, 5,0 fráköst og 1,1 stoðsendingu í leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.