Handbolti

Ótrúlegar lokamínútur tryggðu Selfyssingum jafntefli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hergeir Grímsson stal boltanum á lokasekúndunum.
Hergeir Grímsson stal boltanum á lokasekúndunum. vísir/daníel

Selfoss tók á móti slóvenska liðinu Jeruzalem Ormoz í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í handbolta í kvöld. Selfyssingar eru í fínum málum fyrir seinni leik liðanna, en ótrúlegar lokamínútur tryggðu liðinu jafntefli, 31-31.

Leikurinn var í járnum fyrstu mínúturnar, en Selfyssingar náðu þó þriggja marka forystu eftir tæplega 15 mínútna leik, 7-4. Gestirnir komust þó aftur inn í leikinn og fóru með tveggja marka forskot inn í hálfleikinn, 16-14.

Liðin skiptust á að skora í síðari hálfleik, en Selfyssingar náðu aldrei að brúa bilið. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var munurinn þrjú mörk, 27-24.

Þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka var munurinn enn þrjú mörk, en þá stal Hergeir Grímsson boltanum og minnkaði muninn niður í tvö úr hraðaupphlaupi.

Gestirnir tóku leikhlé, oh töpuðu svo boltanum þegar 56 sekúndur voru til leiksloka. Alexander Egan nýtti sér það og minnkaði muninn í eitt mark.

Gestirnir fóru þá í sína seinustu sókn, en þegar nákvæmlega sjö sekúndur voru til leiksloka stal Hergeir Grímsson boltanum. Hann kom honum á Einar Sverrisson, og hann jafnaði metin fyrir Selfyssinga í þann mund sem lokaflautið gall.

Selfyssingar fara því í útileikinn með jafna stöðu eftir ótrúlega endurkomu, en seinni viðureign liðanna fer fram í Slóveníu um næstu helgi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.