Ármann komst á blað með sigri á Vallea

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Vallea vs Ármann

Liðunum tveimur hefur verið spáð góðu gengi á tímabilinu enda lið Ármanns stjörnum prýtt og Vallea lenti í öðru sæti Stórmeistaramótsins í sumar. Bæði lið áttu svo arfaslaka byrjun og töpuðu stórt í fyrstu umferðinni. Hér gafst því kjörið tækifæri fyrir liðin að sanna sig og hífa sig upp á stigatöflunni í leiðinni.

Leikurinn fór fram í Nuke kortinu í Cedar Creek einhvers staðar í Bandaríkjunum. Vallea hefur sýnt að þeir kunna vel við sig á þessu korti og eru sérstaklega góðir í sókninni, en spennandi var að sjá hvernig Ármann myndi standa sig í klassískara korti en Ancient. Þar léku þeir í síðustu umferð en þar sem kortið var nýtt í kortaúrvalinu og liðið ekki búið að spila mikið saman var á köflum eins og þeir vissu varla hvar þeir væru.

Vallea hafði betur í hnífalotunni og valdi að byrja í vörn (Counter-Terrorists) svo Ármann þurfti að sækja í fyrri hálfleik. Í stað Ofvirks lék PalliB0ndi fyrir Ármann og í fyrsta skoti sínu í fyrsta leik sínum fyrir liðið hitti hann Spike í höfuðið og setti tóninn fyrir leikinn. Vallea hafði þó betur í lotunni og þeirri næstu sem hófst nákvæmlega eins og sú fyrsta. Það sem einkenndi hálfleikinn var þó að Ármann var ævinlega fyrr til að ná fellum í lotum og í þau skipti sem Vallea hafði betur reyndist sigurinn þeim dýr. Mikill munur var því á efnahag liðinni og setti Ármann gífurlega mikla pressu á Vallea sem þó að lokum stóð undir henni. Í bili.

Staða í hálfleik: Vallea 7 - 8 Ármann

Narfi og Stalz hjá Vallea, sem voru virkilega atkvæðamiklir á síðasta áttu erfitt uppdráttar í leiknum á meðan leikmenn Ármanns voru í fantastuði. Ef PalliB0ndi byrjaði fyrsta hálfleikinn vel þá bætti 7homsen um betur í þeim síðari þar sem hann náði fjórum fellum í röð í sextándu og sautjándu lotu til að byggja upp forskot Ármanns. Forskotinu hélt liðið svo út leikinn og munaði þar mestu um að sá kjarni sem áður hefur spilað saman, Kruzer, 7homsen og Hundzi héldu sig saman og staðsettu sig vel til að skapa rými fyrir Varg og Pallab0nda að leika lausum hala. Oftar en ekki reyndust sigrarnir Vallea dýrir og gekk þeim því illa að tengja saman lotur og komast á almennilegt skrið. Í stöðunni 13-14 ætlaði Vallea svo aldeilis að slökkva í Ármanni. Liðið lagði í allt í sölurnar og sótti hratt en hljóp beint í flasið á Hundza sem gerði út af við þrjá andstæðinga á einu bretti. Þá var Ármann í góðri stöðu fyrir síðustu lotuna og fór létt með illa vopnaða leikmenn Vallea.

Lokastaða: Vallea 13 - 16 Ármann

Það vantaði herslumuninn hjá Vallea í gegnum leikinn og þrátt fyrir góða spretti var skortur á ákefð og vilja til að loka lotum. Liðið er því enn stigalaust en mætir Sögu næsta þriðjudag og gæti þá krækt sér í tvö stig. Ármann sýndi að þó liðið hafi ekki leikið mikið saman búa leikmenn yfir gríðarlegum hæfileikum og það er allt til staðar til að skapa spennandi tækifæri og veita bestu liðunum góða andspyrnu. Næsta þriðjudag mætir Ármann Þór og verður það að teljast raunveruleg prófraun fyrir bæði lið. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.