Viðskipti innlent

Gestir Snaps gengu í störf eftir að þjónarnir löbbuðu út

Eiður Þór Árnason skrifar
Snaps Bistro Bar er í eigu Birgis Þórs Bieltvedt fjárfestis en eigendaskipti eru í farvatninu.
Snaps Bistro Bar er í eigu Birgis Þórs Bieltvedt fjárfestis en eigendaskipti eru í farvatninu. Vísir/Vilhelm

Nær allt starfslið veitingahússins Snaps við Óðinstorg hefur sagt starfi sínu lausu vegna víðtækrar óánægju með stjórnarhætti nýs rekstrarstjóra.

Í lok september sendu alls átta þjónar, vaktstjórar, barþjónar og kokkar inn uppsagnarbréf og hættu um mánaðamótin. Síðasta laugardag gengu svo þrír þjónar út á miðri vakt og hafa ekki snúið aftur til starfa.

Að sögn fyrrverandi starfsmanna snýr óánægjan meðal annars að launakjörum, undirmönnun, lakri gæðastjórnun og alvarlegum samskiptavanda sem hafi allt komið til í kjölfar stjórnendaskiptanna. Enginn í hópnum hyggst vinna uppsagnarfrest sinn og hafa margir nú þegar ráðið sig í önnur störf.

Segir allt í góðu á Snaps

Þórir Helgi Bergsson, rekstrarstjóri Snaps, vildi lítið kannast við uppsagnirnar þegar leitað var eftir viðbrögðum.

Stemmir það að þjónar hafi gengið út hjá þér á laugardaginn?

„Nei, þetta er bara innanhúsmál sem við erum að fást við. Það er bara þannig, það er bara allt í góðu hér.“

En þú kannast samt sem áður við þetta?

„Ég kannast bara við að það eru ákveðin … það er ekkert í gangi sko, ekkert til að setja í fréttir allavega.“

Þegar Þórir er spurður nánar út í það hvað átti sér stað á laugardag ítrekar hann að það sé einkamál.

Veitingastaðurinn stendur við Óðinstorg.vísir/vilhelm

Gestir komu starfsmönnum til aðstoðar

Ákveðið var að halda veitingastaðnum opnum þrátt fyrir uppsagnirnar um síðustu mánaðamót og jókst því álag á eftirstandandi starfsmenn til muna á seinustu vikum.

Þjónn sem hætti um síðustu helgi segir að honum hafi þótt nóg komið þegar einungis fjórir starfsmenn, auk Þóris, voru látnir sjá um annasaman bröns á laugardag.

„Við sögðum honum þá að við gætum þetta ekki lengur og ætluðum ekki að vinna um kvöldið, svo við fórum bara,“ segir fyrrverandi starfsmaðurinn. Erfitt sé að horfa upp á þessa þróun þar sem starfsandinn hafi lengi verið góður á veitingahúsinu. Það hafi svo skyndilega breyst við stjórnendaskiptin.

Samkvæmt heimildum Vísis stóðu alls þrír starfsmenn vaktina á laugardagskvöld eftir að þjónarnir höfðu yfirgefið svæðið. Þeirra á meðal var áðurnefndur Þórir og nýr starfsmaður sem hafði byrjað sama dag.

Undirmönnunin fór ekki framhjá gestum veitingahússins og gripu tveir vinir Þóris sem voru mættir í mat til þess ráðs að létta undir með starfsfólkinu.


Tengdar fréttir

Smit sendir ellefu af Snaps í sóttkví

Einn starfsmaður hins vinsæla veitingastaðar Snaps við Óðinstorg í miðbæ Reykjavíkur hefur greinst með Covid-19. Fyrir vikið er hann kominn í einangrun og tíu starfsmenn til viðbótar í sóttkví.

Snaps opnar nýjan stað

Stefnt er að því að opna vínbar við Óðinstorg með vorinu. Það staðfestir fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt í samtali við Vísi. Vín og léttir réttir verða á boðstólnum en staðurinn verður rekinn samhliða Snaps.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.