„Svo gerist þetta allt á sama tíma að mér býðst starfið hjá DecideAct og því var þarna ákveðið tækifæri til að tengja saman spennandi rannsóknir á sviði stefnumótunar og stjórnarhátta við verkefni mín hjá fyrirtækinu.“
Í Atvinnulífinu í vetur verður rætt við fólk sem starfar og/eða hefur starfað í áhugaverðum, óhefðbundnum eða óvenjulegum störfum. Í dag heyrum við um starfsframa Hildar Magnúsdóttur sem nýverið tók ákvörðun um nýtt starf og að skella sér samhliða í doktorsnám.
Lært að sækja tækifærin
Hildur starfaði í 11 ár hjá Jarðborunum og þótt sá geiri teljist frekar karllægur, segir Hildur konum hafa fjölgað í jarðhitabransanum síðustu árin.
„Þegar ég horfi á starfsferilinn minn þá hef ég í raun alltaf starfað þar sem karlar eru meirihluti starfsmanna, hvort sem það var í unglingavinnunni á golfvellinum, netaverkstæðinu hjá pabba mínum eða hjá Jarðborunum, svo ég í raun þekki kannski lítið annað,“ segir Hildur.
Hildur segist almennt hafa tamið sér að reyna að læra mismunandi hluti af þeim sem hún hefur unnið með, óháð kyni. Og þótt umhverfið hafi oftar en ekki verið karllægt, hefur hún ekki upplifað það neikvætt að starfa í slíku umhverfi.
Það sem ég hef lært er að maður þarf sjálfur að koma sér á framfæri og láta það í ljós ef þú hefur áhuga á einhverju starfi eða verkefni innan fyrirtækisins.
Ég var til dæmis í stjórn dótturfélags Jarðboranna eftir að ég sagðist hafa áhuga á að sitja í stjórn. Það var enginn að fara bjóða mér það nema af því ég sóttist eftir því.“
Fyrir stuttu síðan réði Hildur sig sem viðskiptastjóra hjá fyrirtækinu DecideAct, en það fyrirtæki er tæknifyrirtæki sem býður upp á skýjalausn sem heldur utan um framvindu markmiða og stefnur fyrirtækja og eftirfylgni stefnuáætlana; svokallað stefnubókhald sambærilegt og fjárhagsbókhald.
Starfsstöðvar DecideAct eru í Kaupmannahöfn, París, Berlín, Toronto og Reykjavík.
Hildur segir að hjá fyrirtækinu starfi fleiri karlar en konur en þótt svo sé, upplifi hún fyrirtækjamenninguna karllæga, heldur fjölbreytta.
„Hjá DecideAct starfar fólk með ólíkan bakgrunn og frá mismunandi löndum og það er búið að setja saman teymi sem býr yfir mikilli þekkingu á ólíkum sviðum. Það er ótrúlega gaman að vera komin í þetta umhverfi og fá tækifæri til þess að læra af fólki sem kemur úr allt annarri átt en ég sjálf, hvort sem það er menningin eða starfsreynslan,“ segir Hildur.

Að blanda saman fræðum og atvinnulífi
Hildur er með viðskiptafræðigráðu frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.
Samhliða starfi sínu hjá DecideAct mun Hildur stunda doktorsnám við Háskóla Íslands á sviði stjórnarhátta og innleiðingu stefnu með áherslu á ESG og innleiðingu góðra stjórnarhátta.
Upphaflega stefndi Hildur ekki á doktorsnám og viðurkennir reyndar að hún var ekkert svo viss um að hugmyndin um að blanda saman starfi og doktorsnámi væri jafn góð og leiðbeinandinn hennar, Þröstur Olaf, vildi meina.
„Ég var nú ekki alveg á því í upphafi að þetta væri góð hugmynd en ákvað samt að segja ekki nei við þeirri hugmynd strax. Þegar ég fór svo að hugsa þetta betur, þá fannst mér mjög heillandi að geta farið í doktorsnám og stundað rannsóknir í nánu sambandi við atvinnulífið,“ segir Hildur og bætir við: „Stjórnendum DecideAct leist strax mjög vel á þessa hugmynd og þá var ekki aftur snúið. Þetta passaði svo vel saman að það var eiginlega ekki hægt að sleppa þessu tækifæri sem mér stóð allt í einu til boða.“
Hildur segir það líka einkar spennandi að vinna að rannsókn sem getur skapað nýja þekkingu sem getur gagnast bæði atvinnulífinu og styrkt fræðin.
Að mati Hildar hefur ákveðið viðhorf verið viðloðandi á Íslandi sem tengir doktorsnám við að fólk endi þá sem kennarar frekar en starfsmenn á vinnumarkaði.
Hún telur þetta þó vera að breytast enda margir að gera það sama og hún nú; eru í doktorsnámi samhliða starfi.
Þá segist hún sjálf horfa til þeirrar þróunar sem verið hefur erlendis. Til dæmis fer meirihluti doktorsnema Copenhagen Business School að vinna í atvinnulífinu í kjölfar náms, frekar en að starfa í háskólum.
„Þetta var eitthvað sem ég horfði mikið til þegar ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að fara í doktorsnám. Mér fannst það meira spennandi kostur heldur en að fara í doktorsnám án aðkomu atvinnulífsins.“
Hildur segist mjög heppin með það hugarfar sem ríkir hjá DecideAct varðandi það að starfa og vera í doktorsnámi samhliða. Að hennar sögn er þetta ekkert sjálfgefið.
„Bjarni Snæbjörn Jónsson, sem ég starfa með hjá DecideAct á Íslandi er með doktorsgráðu og ég hef almennt upplifað mikinn áhuga innan fyrirtækisins á því að auka þekkingu svo þetta passar mjög vel saman.“
Púsluspilið heima fyrir: Fjölskyldan
Hildur er gift Róbert Gerald Jónssyni tannlækni og eiga þau hjónin saman tvo syni sem eru 5 ára og 9 ára. Fjölskyldan er búsett í Kópavogi en sjálf er Hildur fædd og uppalin á Akranesi.
Að taka við nýju starfi og skella sér í doktorsnám kallar á mikið púsluspil heima fyrir.

„Þetta krefst skipulags. Maður þarf að forgangsraða tímanum sínum og ég veit að ég mun þurfa að sinna ákveðnum verkefnum á kvöldin þegar það er komin ró á heimilinu,“ segir Hildur.
Þá segir hún nýja starfið og doktorsnámið líka ákveðið samvinnuverkefni þar sem miklu skipti að fjölskyldan styður hana heils hugar.
„Við eigum gott bakland sem mun án efa koma sér vel.“
Hildur segist líka meðvituð um mikilvægi þess að hugsa vel um sjálfan sig og njóta.
„Maður þarf að vera duglegur að biðja um aðstoð þegar þess þarf. Ekki gleyma hreyfingu, það verður allt svo miklu auðveldara þegar maður nær að gefa sér tíma fyrir það. Svo muna að njóta í kaosinu líka, mér finnst þetta vera einstakt tækifæri sem ég hef og þótt þetta verði krefjandi þá þarf að njóta ferðalagsins líka og nýta þetta tækifæri til að læra af ólíku fólki,“ segir Hildur.
Þegar Hildur var í meistaranáminu, hætti hún að vinna á meðan og einbeitti sér alveg að náminu. Sat þó í stjórnum og sinnti afleysingum á tannlæknastofu eiginmannsins þegar þess þurfti. Að skella sér í doktorsnám samhliða því að taka við nýju og spennandi starfi viðurkennir hún því að sé alveg áskorun sem stundi kalli fram fiðrildi í magann.
Mér líður svolítið eins og ég sé að byrja í einhverri vertíð núna sem mun standa í ákveðið langan tíma.“