Handbolti

Elísa spilar tvö kvöld í röð en fyrir tvö mismunandi íslensk landslið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísa Elíasdóttir er kominn í stórt hlutverk hjá ÍBV og inn í íslenska A-landsliðið.
Elísa Elíasdóttir er kominn í stórt hlutverk hjá ÍBV og inn í íslenska A-landsliðið. S2 Sport

Annar nýliðanna í íslenska kvennalandsliðinu í handbolta er að taka þátt í tveimur landsliðsverkefnum á sama tíma.

Elísa Elíasdóttir er sautján ára Vestmanneyingur en Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna, valdi hana í fyrsta sinn í A-landsliðið fyrir leik í undankeppni EM.

Elísa er línumaður með var með þrjú mörk að meðaltali í fyrstu tveimur leikjum ÍBV liðsins. Það er ljóst að þarna sér Arnar framtíðarlínumann landsins og vildi taka hana með í þetta verkefni þrátt fyrir að hún væri „upptekin“ annars staðar.

Elísa var nefnilega á sama tíma í hópi sautján ára landsliðsins sem er að spila tvo æfingaleiki í Danmörku til að undirbúa sig fyrir undankeppni Evrópumótsins í næsta mánuði.

Þetta þýðir að hún spilar landsleiki tvo daga í röð en fyrir tvö mismunandi íslensk landslið.

Í kvöld verður Elísa með A-landsliðinu á móti Svíum í Eskilstuna í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik en á morgun spilar hún með átján ára landsliðinu í æfingaleik við danska landsliðið í Kolding í Danmörku.

Elísa sagði í samtali við Ívar Benediktsson á handbolti.is að hún reiknaði alls ekki að vera í endanlegum hóp.

„Ég hélt að ég gæti kannski fengið tækifæri eftir tvö til þrjú ár ef ég héldi áfram að standa mig vel. Þess vegna kom það mér í opna skjöldu þegar haft var samband við mig þegar liðið var valið til æfinga fyrir leikina við Svía og Serba,“ sagði Elísa í samtali við handbolta.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×