Handbolti

Fyrsti sigur Stuttgart kom í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andri Már Rúnarsson skoraði tvö mörk í fyrsta sigri Stuttgart á tímabilinu.
Andri Már Rúnarsson skoraði tvö mörk í fyrsta sigri Stuttgart á tímabilinu. handball-world

Stuttgart vann í dag sinn fyrsta sigur á tímabilinu í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta þegar að Rhein-Neckar Löwen kom í heimsókn. Andri Már Rúnarsson skoraði tvö mörk fyrir Stuttgart þegar að liðið vann 35-30.

Heimamenn í Stuttgart settu tóninn snemma og komust fljótt í þriggja marka forystu. Liðið hélt þeirri forystu út fyrri hálfleikinn, en staðan var 16-13 þegar gengið var til búningsherbergja.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi seinni hálfleiks, en í stöðunni 24-20 náðu gestirnir í Rhein-Neckar Löwen góðu áhlaupi og jöfnuðu leikinn með fjórum mörkum í röð.

Heimamenn létu þó ekki slá sig út af laginu og náðu fljótlega áhlaupi sjálfir. Áhlaupi sem skilaði þeim fimm marka forskoti sem þeir létu aldrei af hendi. Lokatölur 35-30, en þetta voru fyrstu stig Stuttgart á tímabilinu sem hafði tapað fyrstu fjórum leikjum sínum.

Liðið er nú í 14. sæti með tvö stig eftir fimm leiki, en Rhein-Neckar Löwen er í 11. sæti með tveim stigum meira.

Andri Már Rúnarsson skoraði sem fyrr segir tvö mörk fyrir Stuttgart, en Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað fyrir gestina. Viggó Kristjánsson var ekki í leikmannahóp Stuttgart vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×