Körfubolti

Haukar, Höttur og Álftanes með fullt hús stiga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bæði Haukar og Höttur hafa unnið báða leiki sína í upphafi móts í 1. deild karla í körfubolta.
Bæði Haukar og Höttur hafa unnið báða leiki sína í upphafi móts í 1. deild karla í körfubolta. Vísir/Vilhelm

Fimm leikir fóru fram í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Haukar, Höttur og Álftanes hafa öll unnið báða leiki sína í upphafi móts, en Hamar, Skallagrímur og ÍA eru enn í leit að sínum fyrsta sigri.

Haukar fengu Sindra í heimsókn, en heimamenn tóku forystuna snemma og létu hana aldrei af hendi. Haukar unnu að lokum öruggan 24 stiga sigur, 90-66, þar sem Shemar Jeremy Herbert Smith var stigahæstur í liði heimamanna með 19 stig.

Höttur vann góðan 17 stiga sigur, 104-87, þegar að liðið heimsótti Selfoss. Trevon Lawayne Evans fór mikinn í sóknarleik heimamanna og skoraði 38 stig, en það dugði ekki til. Arturo Fernandez Rodriguez var atkvæðamestur í liði Hattar með 23 stig.

Þá vann Álftanes 15 stiga sigur þegar Hamar frá Hveragerði kom í heimsókn. Lokatölur 86-71 en það var Cedrick Taylor Bowen sem var stigahæstur heimamanna með 22 stig.

Að lokum unnu Hrunamenn og Fjölnir sína fyrstu leiki á þessu tímabili í kvöld. Hrunamenn unnu fimm stiga sigur gegn ÍA, 106-101, og Fjölnir vann 11 stiga útisigur gegn Skallagrím, 88-77.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×