Körfubolti

„Þá segir bara FIBA að þessi landsleikur verður ekki á Íslandi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson í leik á móti Portúgal í Laugardalshöllinni.
Landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson í leik á móti Portúgal í Laugardalshöllinni. Vísir/Daníel Þór

Íslenska körfuboltalandsliðið þarf mögulega að spila heimaleiki sína í undankeppni HM erlendis af því að Ísland getur ekki boðið upp á hús sem stenst kröfur FIBA.

Íslenska karlalandsliðið á að mæta Ítalíu, Rússlandi og Hollandi í nóvember, febrúar og júní á næsta ári. Laugardalshöllin er lokuð vegna viðgerða og leikir íslenska liðsins í nóvember eru í uppnámi af þeim sökum.

Það er því líklegt að íslenska liðið þurfi að spila heimaleiki sína í Danmörku.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, ræddi við Guðjón Guðnundsson um stöðuna sem er komin upp.

„Já, já, það er bara nákvæmlega staðan. Það er það sem er inn í myndinni núna. Við erum búin að tala um þetta í nokkur ár að þetta gæti gerst,“ sagði Hannes.

Hannes S. Jónsson í viðtalinu við Gaupa.Skjámynd/S2 Sport

„Það eru meiri kröfur fyrir undankeppni HM heldur en undankeppni EM. Hugsanlega fáum við undanþágu fyrir stelpuleikina því þær eru að fara í undankeppni EM. Strákarnir eru að fara í undankeppni HM og þar eru ennþá meiri kröfur frá FIBA fyrir þau 32 lönd sem eru í þeirri undankeppni,“ sagði Hannes.

„Okkar góði árangur og þessi árangur að vera á þessum stað hann gerir það að verkum að nú erum við komin á þann stað að FIBA er bara búið að fá nóg,“ sagði Hannes.

„Laugardalshöllin er ekki í lagi og hún hefur ekki verið í lagi í hátt í ár. Hún virðist ekki vera í góðu standi fyrr en einhvern tímann eftir jól í fyrsta lagi. Þá er næsta skref að sækja um undanþágu og við erum á undanþágu með Laugardalshöllina. Núna erum við að sækja um undanþágu ofan á undanþágu og FIBA sagði bara stop,“ sagði Hannes.

„Þannig er staðan. Til dæmis eru bara tvær körfur til á landinu sem eru löglegar og þær eru báðar staddar hér í Laugardalshöllinni. Bæði er mjög erfitt að nálgast þær eins og staðan er í dag vegna framkvæmdanna í Laugardalshöllinni. Einnig eru þær þannig gerðar að það er mjög erfitt að flytja þær,“ sagði Hannes.

„Ef við náðum ekki á næstu tveimur vikum að koma þessum körfum á Ásvelli, í Smárann eða í þann stað sem við teljum getað farið í næst. Þá segir bara FIBA, þetta er bara búið og þessi landsleikur verður ekki á Íslandi,“ sagði Hannes.

Það má finna allt spjall Gaupa við Hannes hér fyrir neðan.

Klippa: Formaður KKÍ um stöðu heimaleikja karlalandsliðsinsFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.