Skoðun

Kjósum eins og fram­tíðin - fyrir fram­tíðina

Gísli Rafn Ólafsson skrifar

Eitt af því athyglisverðasta í aðdraganda kosninga er að þegar skoðanakannanir eru greindar eftir aldri, þá er oft yfir þriðjungur kjósenda á aldursbilinu 18-29 ára sem nefnir Pírata sem sinn fyrsta valkost. Í öðru sæti er Samfylkingin með tæp 20%. Aðrir flokkar eru í kringum 5-10% hver. Þessu er öfugt farið þegar kemur að 45 ára og eldri, þar er Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn með mest fylgi og flestir aðrir flokkar með fylgi í kringum 5%.

Þetta þykir okkur Pírötum miður enda tala okkar stefnumál vel til allra aldurshópa. Það sést t.a.m. á nýjum samanburði Landssambands eldri borgara á stefnum stjórnmálaflokkanna. Þar eru Píratar áberandi jákvæðastir í garð áhersluatriða eldri borgara.

Í undanförnum kosningum hefur ungt fólk ekki verið alveg jafn duglegt að mæta á kjörstað og þau sem eldri eru. Þetta hefur leitt til þess að niðurstöður kosninga geta orðið á annan veg en skoðanakannanir segja til um og einmitt oft talað um að Sjálfstæðisflokkurinn sé vanmetinn í könnunum á meðan að Píratar séu ofmetnir. Í aðdraganda kosninga kann fólk þannig að gera sér væntingar um framsýnar breytingar, en þess í stað situr íhaldið oft áfram á valdastólum, þrátt fyrir að unga fólkið vilji sjá framtíðarpólitík.

En af hverju finnur unga fólkið samhljóm með Pírötum? Ástæðan er einföld. Píratar eru flokkur sem horfir til framtíðar í stað þess að vera fastir í viðjum fortíðarinnar. Þegar kemur að mikilvægum málum sem snerta framtíð ungs fólks, eins og loftslagsmál, þá eru Píratar ekki að boða lausnir síðustu áratuga, heldur lausnir sem virka núna og í framtíðinni. Skýrasta birtingarmynd þess mátti sjá í Sólinni, úttekt Ungra Umhverfissinna á stefnu flokkanna í loftslags- og umhverfismálum. Það skoruðu Píratar best.

Píratar eru nefnilega tilbúnir að horfa á núverandi kerfi og finna nýjar og nútímalegri leiðir til þess að tryggja að bættum markmiðum sé náð. Vandamálið er nefnilega að mörg kerfi og stofnanir sem stjórnmálamenn fortíðarinnar hafa búið til eru ónýt og úr sér gengin, en það skortir vilja til þess að laga eitthvað. Stjórnmálamenn fortíðarinnar halda að það að viðurkenna gallana á kerfunum sem þeir bjuggu til sé viðurkenning á mistökum. Þeir gleyma nefnilega að samfélagið þróast og kerfin þurfa að þróast með.

Nú hefur ungt fólk mikilvægt tækifæri til þess að móta framtíðina. Framtíð þar sem við tryggjum alvöru aðgerðir í loftslagsmálum. Framtíð þar sem við sköpum tækifæri fyrir ungt fólk. Framtíð þar sem við útrýmum fátækt á Íslandi. Framtíð með 21. aldar velsældarsamfélagi. Framtíð þar sem við virðum lýðræði - ekkert kjaftæði!

Höfundur skipar 2. sæti Pírata í Suðvesturkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×