Skoðun

Lausn á vanda heil­brigðis­kerfis

Eggert Eyjólfsson skrifar

1. Tryggja að fólk vilji vinna í heilbrigðiskerfinu.

 • Til þess þarf að semja við starfsfólkið.
 • Þar má helst nefna hjúkrunarfræðinga og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk (sérfræðilækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga, talmeinafræðinga og líklega ótal fleiri).
 • Þetta kostar peninga.

2. Skapa ásættanlegt vinnuumhverfi.

 • Að vera á fullu, alltaf, alla daga er ekki vænlegt til árangurs eða ánægju. Það þarf fleiri rúm, það þarf sveigjanleika.
 • Virkja þá innviði sem þegar eru til staðar. Fullbúin sjúkrahús á Selfossi, Keflavík, Akranesi, Ísafirði, Akureyri og Neskaupsstað geta, ef fjármagn og vilji er fyrir hendi tekið að sér fleiri verkefni.
 • Opna á fjölbreyttari rekstrarform en nú er í heilbrigðisþjónustu. Pólitískar kreddur um endaulasan opinberan rekstur eru í besta falli mjög gamaldags og ó-norræn nálgun, en í versta falli hættuleg kerfinu.

3. Alvöru stefnumörkun og eftirfylgni.

 • Heilbrigðisstefna til 2030 er ekki stefna. Það er meira eins og óskalisti, en ekki aðgerðarplan sem á að fara eftir.
 • Heilbrigðiskerfið vantar sárlega stjórnun. Tilfinningin er sú að þar ráði enginn, en að stjórnendur séu mýmargir.
 • Það þarf að skipa sjálfstæða stjórn yfir Landspítalanum, sem heyrir undir ráðherra.
 • Það þarf að skipa stjórn yfir minni sjúkrahúsunum, til að samhæfa rekstur og fylgja eftir heildarstefnu um framkvæmd heilbrigðisþjónustu á landinu.
 • Til þess að hægt sé að stjórna, þarf stefnu til að fara eftir. Henni þarf líka að fylgja fjármagn.
 • Lykilatriðið er svo að framkvæmdum verkum fylgi fjármagn, en það er öllum algerlega augljóst að rekstur heilbrigðiskerfis á föstum fjárlögum er ekki mögulegur.

4. Stjórnun og ábyrgð

 • Það þarf einhver að ráða. Það þarf einhver að taka ákvörðun. Það verða ekki allir ánægðir, alltaf. Stundum þarf að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir. Til þess þarf stjórnir sem eru hæfar til verksins.

Að lokum

Kröfur til gæða og árangurs í heilbrigðisþjónustu hafa vaxið mikið undanfarin ár. Það eru gerðar kröfur um gæðaeftirlit, árangur og framleiðni í þjónustunni sem og kröfur um kennslu heilbrigðisstétta og vísindarannsóknir. Þetta kostar peninga og tíma. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þessir hornsteinar þjónustunnar séu aftar á merinni en aðrir. Það þarf fólk til að sinna þessu, þessu fólki verður að umbuna og það þarf starfsaðstöðu, eins og aðrir starfsmenn.

Heilbrigðiskerfið á Íslandi var einu sinni gott. Þar var fólk stolt af sinni vinnu og sínum vinnustöðum. Þar voru margar tiltölulega smáar einingar sem skiluðu sínu. Síðan hafa liðið mörg ár, kröfurnar eru aðrar og umhverfið gjörbreytt. Sífelldar kröfur um hagræðingu, spretthlaup og heljarstökk hafa tekið sinn toll. Fólk er langþreytt.

Til að draga heilbrigðiskerfið upp úr þeim forarpytti sem það er pikkfast í þarf að gera eitthvað. Það þarf nýja nálgun, ábyrga stjórnun og nægt fjármagn til að koma breytingum til leiða.

Höfundur er læknir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.