Viðskipti innlent

Síminn kaupir hlut í nýrri ís­lenskri streymis­veitu

Eiður Þór Árnason skrifar
Síminn hefur lengi staðið í fjölmiðlarekstri og rekur nú streymisveituna Sjónvarps Símans Premium.
Síminn hefur lengi staðið í fjölmiðlarekstri og rekur nú streymisveituna Sjónvarps Símans Premium. Vísir/vilhelm

Síminn hefur keypt hlut í nýrri íslenskri streymisveitu sem nefnist Uppkast. Streymisveitan mun taka við efni frá almenningi og gera fólki kleift að miðla þekkingu sinni eða hæfileikum til áskrifenda og hafa af því tekjur í samræmi við spilun.

ViðskiptaMogginn greinir frá kaupunum en þjónustan er enn á þróunarstigi. Að sögn Stef­áns Arn­ars Þóris­son­ar og Arn­ars Ar­in­bjarn­ar­son­ar, stofnenda Uppkasts, verður allt efnið á íslensku og efnistökin fjölbreytt.

Munu notendur meðal annars fá aðgang að myndverum til þess að taka upp efni og senda það út í gegnum smáforrit Uppkasts. Verður þar hægt að setjast niður í myrkvuðu hlaðvarpsherbergi, upplýstum tónleikasal eða fullbúnu eldhúsi þar sem allur tækni- og myndvinnslubúnaður er sagður vera til staðar. Einnig verður tekið við tilbúnu myndefni.

Áhorfsmínútur stýra tekjum

Á vef Uppkasts segir að streymisveitan sé „hinn fullkomni vettvangur fyrir þá sem vilja koma á framfæri hæfileikum sínum hvort heldur í gegnum lifandi streymi eða með uppteknu myndefni.“

Boða stofnendur að upptökur og eftirvinnsla í myndverunum verði notendum að kostnaðarlausu en áhorfsmínútur stýri tekjum þeirra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×