Skoðun

Velsældin í „landi tækifæranna“

Aldís Schram skrifar

Vegna bílslyss árið 2020 missti Una Bjarnhéðinsdóttir vinnuna og fór á örorkubætur þess valdandi að hún, einstæð móðirin, hefur nú ekki efni á hollustumat, tannlækni, læknum, sálfræðingi, sjúkraþjálfun, tryggingum, líkamsrækt, hárgreiðslu, fatnaði, strætómiðum, námskeiðum, leikhúsmiðum, tónleikamiðum, gjöfum, utanbæjarferðum og utanlandsferðum og getur ekki efnt það loforð við átta ára dóttur sína að hún megi fara í tónlistarskóla í vetur.

Hvað á Una að gera?

1) Setja barnið í tónlistarskóla og lifa sjálf á loftinu?

2) Hækka yfirdráttarheimildina?

3) Betla mataraðstoð?

4) Gerast vændiskona?

5) Efna ekki loforðið við barnið sitt?

Kvótakóngurinn í bænum hans Einars Benediktssonar seldi kvótann burt árið 2018, með þeim lyktum að Jón missti vinnuna og húsið og gerðist bæjarómagi, þess valdandi að hann á nú ekki fyrir útskriftargjöf handa sonarsyninum.

Hvað á hann að gera?

1) Mæta með gjöf upp á 10.000 krónur og borða ekki í fimm daga í staðinn?

2) Taka lán hjá banka?

3) Ræna Samherja?

4) Mæta tómhentur í veisluna?

5) Mæta ekki í veisluna?


Jón Sigurðsson, sem gert er að lifa af ellilífeyri, á ekki fyrir lyfjum.

Hvað á hann að gera?

1) Leysa út lyfin og lifa á kattamat í staðinn?

2) Láta loka fyrir rafmagn, síma, hita, sjónvarp og tryggingar og leysa út lyfin?

3) Kaupa flugmiða til Danmerkur, aðra leiðina?

4) Leysa ekki út lyfin?

5) Bjóða til síðustu kvöldmáltíðar á Hótel Íslandi og láta skrifa hjá fjármálaráðherra?


Er nema von að kjósendur spyrji sig hvað stjórnarflokksmenn ætli sér að gera, haldi þeir velli?

1) Svíkja gefin loforð um að bæta hag eldri borgara?

2) Skeyta ekki um skýrslu Vörðu um örbirgð fatlaðs fólks?

3) Hækka beina skatta á lág- og millitekjufólk en lækka veiðigjöldin og skatta á kvótakóngana?

4) Virða að vettugi skoðanakannanir sem m.a. sýna að meirihluti þjóðarinnar vill að markaðsgjald verði greitt fyrir afnot af fiskimiðum landsins, hátekjufólkið borgi stærri hluta í skatt og að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að minnka tekjumun í landinu?

5) Hunsa enn og aftur tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 - m.a. þess efnis að 10% kjósenda geti lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi, og þar með hindra að lýðræðislegur vilji landsmanna nái fram að ganga?

Við vitum nú þegar svarið, því af ávöxtunum þekkjum við þá.

Höfundur er frambjóðandi Sósíalistaflokksins í NV-kjördæmiAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.