Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - ÍBV 27-30 | Eyjasigur gegn sprækum Víkingum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kári Kristjánsson og félagar í ÍBV.
Kári Kristjánsson og félagar í ÍBV. Vísir/Elín Björg

ÍBV vann sigur á Víkingum í 1.umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld en leikurinn fór fram í Víkinni. Lokatölur 30-27 eftir að Víkingar höfðu leitt lengst af í leiknum.

Nýliðar Víkinga fóru vel af stað í upphafi leiks. Þeir skoruðu fyrsta mark leiksins og voru komnir í 5-2 forystu eftir tíu mínútna leik gegn sterku liði Eyjamanna.

Vörn ÍBV var götótt í upphafi en Björn Viðar Björnsson í markinu varði vel líkt og kollegi hans hinu megin, Jovan Kukobat í marki Víkinga.

Eyjamenn voru þó aldrei langt undan og forystan í hálfleik var tvö mörk, staðan þá 12-10.

Í síðari hálfleik var svipað uppi á teningunum. Eyjamenn skiptu ört um varnarleik og byrjuðu í 6-0 vörn í upphafi síðari hálfleiks líkt og í byrjun leiks, eftir að hafa skipt í 5-1 vörn um miðjan fyrri hálfleik.

Víkingar gerðu fleiri og fleiri mistök sóknarlega og ÍBV gekk á lagið með Rúnar Kárason fremstan í flokki í sókninni.

Í stöðunni 22-19 fyrir heimamenn tóku Eyjamenn leikhlé og náðu í kjölfarið 5-1 kafla. Víkingar náðu aldrei forystunni á ný eftir það, ÍBV landaði að lokum þriggja marka sigri og fögnuðu vel í leikslok.

Af hverju vann ÍBV?

Það má segja að einstaklingsframtak Rúnars Kárasonar í síðari hálfleik hafi gert gæfumuninn. Hann skoraði níu mörk í síðari hálfleiknum og alls tíu mörk í þrettán skotum. Á síðasta korterinu tóku Eyjamenn alveg yfir og Víkingar gerðu mistök sóknarlega.

Varnarlega voru Eyjamenn götóttir en náðu að stoppa betur í þau göt eftir því sem á leið leikinn. Þeir breyttu reglulega um í vörninni en best gekk með Ásgeir Snæ Vignisson í hlutverkinu fyrir framan í vörninni.

Víkingar fóru illa að ráði sínu síðasta korterið. Þeir höfðu verið skynsamir fram að því en klaufaleg mistök sóknarlega og opin vörn á köflum bauð ÍBV inn í leikinn.

Þessir stóðu upp úr:

Eftir nokkur mistök í fyrri hálfleiknum og eitt mark steig Rúnar Kárason heldur betur upp í síðari hálfleiknum. Hann skoraði 9 mörk eftir hlé, oft á tíðum eftir einstaklingsframtak og sýndi það sem hann færir þessu ÍBV liði í vetur. Róbert Sigurðarson var góður varnarlega og Gabríel Martinez skoraði mikilvæg mörk í horninu.

Jóhann Reynir Gunnlaugsson var frábær hjá Víkingi, sérstaklega til að byrja með og Jóhannes Berg Andrason sýndi lipra takta. Þá nýtti Hjalti Már Hjaltason færin sín vel á línunni.

Hvað gekk illa?

Björn Viðar og Jovan voru báðir góðir í fyrri hálfleiknum og vörðu oft á tíðum mjög vel. Þeir misstu dampinn eftir hlé en Petar Jokanovic og Sverrir Andrésson sem komu inn eftir nokkrar mínútur í síðari hálfleik náðu hvorugir að verja skot og fóru fljótt út aftur.

Haustbragurinn á leiknum var vel greinilegur. Liðin gerðu klaufaleg mistök sóknarlega og eiga eftir að slípa kerfin töluvert betur saman og stoppa í göt varnarlega.

Hvað gerist næst?

ÍBV fer í Garðabæinn í næstu viku og mætir Stjörnunni í það sem verður eflaust mjög áhugaverður leikur. Víkingur heldur norður yfir heiðar og mætir KA sem vann sigur í sínum fyrsta leik í kvöld.

Jón Gunnlaugur: Mér fannst þetta lélegt og lét heyra í mér

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkinga, var pirraður eftir leikinn í kvöld.Víkingur

Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari Víkinga var hundfúll að leik loknum enda hans menn með yfirhöndina gegn Eyjamönnum lengst af.

„Við vorum mjög flottir í fyrri hálfleik en arfaslakir í þeim síðari. Við erum þetta týpíska „underdog“ lið, þurfum að halda ákefðinni í gangi. Við hættum að reyna á þetta í síðari hálfleik. Ég er bara djöfulli pirraður,“ sagði Jón Gunnlaugur í samtali við Vísi eftir leik.

Í flestum spám fyrir tímabilið hefur Víkingum verið spáð neðsta sæti Olís-deildarinnar enda nýliðar sem fengu sæti í deildinni með skömmum fyrirvara í sumar.

„Við sýndum það núna í dag að við getum alveg spilað handbolta. Mér er alveg sama um þessar spár, þetta var í okkar höndum að taka tvö stig í kvöld og við áttum að gera það.“

Aðspurður um rauða spjaldið sem Gísli Jörgen Gíslason fékk í seinni hálfleik var Jón stuttorður.

„Klaufalegt, hárrétt rautt spjald.“

Athyglisvert atvik gerðist undir lok leiksins. Eyjamenn voru þá þremur mörkum yfir og tóku leikhlé þegar 10 sekúndur voru eftir. Jón Gunnlaugur var allt annað en sáttur og sakaði Erling Richardsson þjálfara ÍBV um óíþróttamannslega framkomu.

„Það eru 10 sekúndur eftir, þeir eru þremur mörkum yfir og búnir að vera undir allan leikinn. Þá tekur hann leikhlé til að stilla upp í einhverja svakalega lokasókn. Mér fannst þetta bara lélegt og lét bara heyra í mér,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson að lokum.

Erlingur: Vonandi tekur hann útskýringunni eftir á

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV.vísir/vilhelm

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV var ánægður með margt í leik liðsins í kvöld en sagði leikinn hafa verið kaflaskiptan.

„Það eru plúsar og mínusar hér og þar. Varnarleikurinn á köflum góður, markvarslan á köflum góð og sóknarleikurinn á köflum góður. Þetta var kaflaskipt af okkar hálfu og Víkingar mjög klókir, spiluðu langar sóknir og náðu stundum að svæfa okkur. Þetta var hörkuleikur.“

ÍBV hóf leikinn í 6-0 vörn í upphafi sem gekk ekki sem skyldi. Hin fræga ÍBV-vörn kom einnig við sögu og Erlingur bjóst við að nota báðar þessar varnir mikið í vetur.

„Þetta er líka spurning hvernig við nýtum mannskapinn, sumir eru sterkari í 5-1 vörninni en aðrir í 6-0. Það er kannski pælingin. Við byrjuðum í 6-0 og Jóhann Reynir var heitur þá, frábær skytta og náði góðum skotum. Við áttum í erfiðleikum með hann.“

„Við reyndum að bregðast við og fórum í 5-1 en byrjuðum aftur seinni hálfleikinn í 6-0 sem virkaði þá ágætlega. Þetta verður svona.“

ÍBV-liðið er töluvert breytt frá því í fyrra og koma Rúnars Kárasonar bætir mikið í skotógnina fyrir utan teig andstæðinganna.

„Við erum með meiri breidd, getum hvílt leikmenn og breytt leikskipulagi eftir því hverjir eru inná vellinum. Við vorum fámennari í fyrra í skyttustöðunum og þurftum aðeins að kreista mikið út úr þeim fáu sem voru. Nú erum við með fleiri og getum skipt. Það einkennir leikinn í dag því við erum enn að finna taktinn og sjá hverjir geta spilað saman. Við erum enn að þróa þetta allt.“

„Það var líka ein af ástæðunum fyrir því að ég tók leikhlé með 10 sekúndur eftir, að nýta tímann og reyna að fá góða sókn. Nota tækifærið,“ sagði Erlingur en kollegi hans, Jón Gunnlaugur Viggósson, var mjög ósáttur með að Erlingur skyldi taka leikhlé þegar sigurinn var í höfn.

„Ég skil hann alveg en núna erum við staddir í fyrsta leik í móti og erum með nýja leikmenn í stöðum sem við þurfum að spila inn. Það er ekkert óeðlilegt að ég taki leikhlé og reyni að kreista eina sókn í viðbót með einhverju sem vorum að reyna að leggja inn. Ég útskýrði það fyrir honum og vonandi tekur hann því svona eftir á,“ sagði Erlingur að endingu.

Kári Kristján: Fengum einn á kjaftinn

Kári Kristján Kristjánsson í baráttunni með Eyjamönnum.vísir/hag

„Þessi leikur á eftir að verða dýrmætur fyrir okkur til að læra af, við fengum eiginlega bara einn á kjaftinn. Það er einkunnin, einn á kjaftinn,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson línumaður ÍBV eftir 30-27 sigur Eyjamanna á Víkingum í Olís-deildinni í kvöld.

Eyjamenn voru ryðgaðir í upphafi en miðað við spár fyrir mótið mátti alveg búast við öruggum sigri Eyjamanna í Víkinni.

„Nú kemur frasadeildin, við þurfum að slípa okkur saman og allt það. Einstaklingsframtakið í seinni hálfleik er mjög sterkt hjá okkur og Rúnar (Kárason) eiginlega klárar seinni hálfleikinn hjá okkur. Róbert (Sigurðarson) var frábær varnarlega. Við hinir eigum svolítið í land og þurfum að stíga upp.“

Víkingsliðið eru nýliðar og þar að auki fengu þeir ekki sætið sitt í deildinni fyrr en seint í sumar þegar Kría dró sig úr keppni. Það var þó ekki að sjá í kvöld því Víkingar spiluðu hörkuvel lengi vel.

„Við eigum í gríðarlegum vandræðum með Jóhann (Reyni Gunnlaugsson) eiginlega mest allan leikinn. Hann skaut okkur í kaf í fyrri hálfleik en í þeim seinni byrjum við að vinna bolta og fáum auðveld mörk. Þetta fer að vinna með okkur þar og svo er Rúnar alveg sjóðandi heitur í seinni hálfleik.“

„Hann er frábær viðbót,“ sagði Kári um Rúnar sem gekk til liðs við ÍBV í sumar eftir fjölmörg ár í atvinnumennsku.

„Við erum risa félag í handboltanum og við viljum fá góða leikmenn til okkar. Hann er einn af þeim sem fellur inn í þetta mót hjá okkur, hann er heppinn,“ sagði Kári hress að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira