Skoðun

Börn fatlaðs fólks skilin eftir og ráð­herra þorir ekki í Kast­ljós

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Átta af hverjum tíu manneskjum með fötlun eiga erfitt með að ná endum saman og langflest hafa þurft að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sem var unnin fyrir Öryrkjabandalag Íslands.

Ástandið bitnar ekki síst á börnum sem eiga fatlaða foreldra. Fjögur af hverjum tíu með fötlun eiga ekki fyrir nauðsynlegum fatnaði á börnin sín, þriðjungur getur ekki keypt nógu næringarríkan mat handa börnunum og þrjú af hverjum tíu hafa ekki efni á skipulögðum tómstundum.

Þetta eru sláandi niðurstöður og áfellisdómur yfir þeim stjórnmálaflokkum og ráðherrum sem hafa farið með málefni barna og málefni öryrkja og fatlaðs fólks undanfarin ár, á kjörtímabili þar sem bilið milli örorkulífeyris og lægstu launa á vinnumarkaði hefur breikkað ár frá ári og frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna staðið í stað.

Kannski segir það sitt að Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra treysti sér ekki til að mæta í Kastljós í gær og svara fyrir það sem fram kemur í skýrslunni. Hann veit upp á sig skömmina. Í öllum PR-sirkúsnum í kringum málefni barna er eins og Ásmundur hafi gleymt því að fatlað fólk á líka börn – og það versta sem hægt er að gera þessum börnum er að skilja þau og foreldra þeirra eftir í fátækt.

Á næsta kjörtímabili þarf að stöðva kjaragliðnunina og bæta kjör þeirra sem hafa setið eftir á undanförnum árum. Um þetta verður kosið þann 25. september.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.