Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins þar sem segir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hafi undirritað viljayfirlýsinguna á milli viðkomandi ráðuneyta og fyrirtækjanna tveggja.
Sem fyrr segir hafa fyrirtækin kynnt nýjar leiðir við að fanga koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Aðferðin felur í sér að færa kolefnismettaðan sjó niður á dýpi með tilheyrandi uppstreymi kolefnisrýrs sjávar sem dregur í sig Co2 úr andrúmsloftinu. Á síðari stigum verði þannig framleiddur lífmassi á umhverfisvænan hátt.
Ýmsum spurningum er enn ósvarað varðandi þessa nýju tækni og er markmið samstarfsins m.a. söfnun upplýsinga, svo unnt sé að leggja mat á möguleg áhrif aðferðarinnar á vistkerfi sjávar, umhverfi, efnahag og samfélag, ekki síður en möguleika hennar til þess að draga úr koltvísýringi í andrúmslofti, segir á vef stjórnarráðsins.