Skoðun

Sál­fræðinga í alla fram­halds­skóla landsins!

Tómas A. Tómasson og Kolbrún Baldursdóttir skrifa

Flokkur fólksins telur mikilvægt að sálfræðingar verði í öllum framhaldsskólum landsins. Sálfræðingar eru í einhverjum framhaldsskólum en Flokkur fólksins vill, komist hann til áhrifa á Alþingi, berjast fyrir að fá sálfræðinga í alla framhaldsskóla landsins. Í framhaldsskólunum eru krakkarnir fyrstu tvö árin undir lögaldri. Mik­ill áhugi er meðal fram­halds­skóla­nema á að boðið sé upp á ókeyp­is sál­fræðiþjón­ustu inn­an veggja skól­anna. Þeir kjósa frek­ar að hafa aðgang að slíkri þjón­ustu í skól­an­um en á heilsu­gæslu­stöðvum þar sem sálfræðiþjónusta er frí fyrir 18 ára og yngri. Langir biðlistar eru eftir sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum þótt þeir séu mislangir.

Nemendur kjósa frekar persónuleg samtöl við sálfræðinga. Þetta hefur komið fram m.a. í könnunum. Í framhaldsskólum eru námsráðgjafar og þeir vinna ómetanlegt starf. En það er ekki nóg nú þegar hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að líðan barna og ungmenna fer versnandi. Í mörgum framhaldsskólum eru sérdeildir, starfsbrautir og annað námsframboð sem er sérstaklega ætlað fötluðum nemendum. Þörfin er því mikil.

Þörfin enn brýnni vegna áhrifa Covid-19

Á Íslandi stunda um 20.000 nemendur nám á framhaldsskólastigi. Fjölmargir í þessum hópi glíma við áskoranir í sínu lífi. Í þessu hópi eru einnig nemendur sem glíma við andlega vanlíðan. Líðan ungs fólks hefur versnað eftir að COVID-19 reið yfir með öllum sínum áhrifum og afleiðingum. Að mati Flokks fólksins hefur þörfin því aldrei verið meiri en núna að grípa inn í og veita ráðgjöf, stuðning eða meðferð eftir því sem við á hverju sinni. Ef andleg vanlíðan er ekki meðhöndluð hefur það neikvæð áhrif á námsgengi nemendanna og getur aukið líkur á brotthvarfi eða seinkað námslokum verulega. Það hefur margsýnt sig að því fyrr sem hægt er að fá aðstoð er dregið úr líkum þess að vandinn verði flóknari síðar á lífsleiðinni og hafi í för með sér aukinn samfélagslegan kostnað.

Flokkur fólksins vill að aðgengi að sálfræðingum fyrir börn og ungt fólk verði stóraukið og gert verulega gott. Samhliða þarf að útrýma biðlistum sem eru alvarlegt mein í íslensku samfélagi. Með því að auðvelda aðgengi að viðeigandi þjónustu er líklegra að nemendur leiti sér aðstoðar og nái fyrr betri tökum á lífi sínu.

Fólkið fyrst – svo allt hitt!

Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×