Körfubolti

Fyrrum troðslu­kóngur NBA-deildarinnar á tíunda degi á gjör­gæslu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cedric Ceballos í leik með Phoenix Suns. Hann er nú á sínum tíunda degi á gjörgæslu.
Cedric Ceballos í leik með Phoenix Suns. Hann er nú á sínum tíunda degi á gjörgæslu. Getty Images

Cedrid Ceballos fyrrum troðslukóngur NBA-deildarinnar hefur nú legið í tíu daga á gjörgæslu sökum kórónuveirunnar. Hann biður fólk um að biðja fyrir sér og segir baráttu sína hvergi nærri búna.

Hinn 52 ára gamli Ceballos lék heilan áratug í NBA-deildinni í körfubolta. Hann gekk til liðs við Phoenix Suns árið 1990 og sigraði í hinni víðfrægu troðslukeppni árið 1992. Ceballos vann keppnina með því að troða blindandi. 

Árið 1994 hélt hann í borg Englanna, Los Angeles, og samdi við LA Lakers. Þar var hann í þrjú ár áður en hann fór aftur til Suns 1997 en var svo mættur til Dallas Mavericks ári síðar.

Hann gekk í raðir Detroit Pistons árið 2000 og endaði svo NBA ferilinn hjá Detroit Pistons. Eftir það lék hann með fjölda liða, bæði í Bandaríkjunum sem og erlendis. Ber þar helst að nefna Harlem Globetrotters.

Hann hefur nú birt hjartnæma færslu á Twitter þar sem hann óskar eftir því að fólk biðji fyrir sér og óski honum góðs bata.

„Er á mínum tíunda degi á gjörgæslu. Covid-19 er svo sannarlega að sparka í rassinn á mér en ég vil biðja fjölskyldu mína, vini baráttufólk og heilara um að biðja fyrir mér og óska mér góðs bata. Ef ég hef gert eitthvað á þinn kostnað í fortíðinni þá biðst ég hér opinberlega afsökunar. Baráttu minni er ekki lokið. Takk,“ segir Ceballos í færslu sinni á Twitter.

Á ferli sínum í NBA skoraði Ceballos 8693 stig eða 14,3 að meðaltali í leik. Hann tók 3258 fráköst eða 5,3 í leik og gaf 723 stoðsendingar eða 1,2 í leik að meðaltali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×