Viðskipti innlent

Karl Eskil ráðinn til að stýra heima­síðu og miðlum Sam­herja

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Eskil Pálsson hefur að undanförnu starfað sem dagskrárgerðarmaður á sjónvarpsstöðinni N4 á Akureyri.
Karl Eskil Pálsson hefur að undanförnu starfað sem dagskrárgerðarmaður á sjónvarpsstöðinni N4 á Akureyri. Samherji

Karl Eskil Pálsson fjölmiðlamaður hefur verið ráðinn til Samherja og mun hann miðla fréttum á heimasíðu og samfélagsmiðlum félagsins, auk þess sem hann mun sinna innri vef Samherja þar sem upplýsingum og fræðsluefni er komið til starfsfólks.

Þetta kemur fram á heimasíðu Samherja. Þá mun Karl Eskil hafa á sinni könnu ýmis önnur verkefni á sviði upplýsingamála. Samherji hefur mikið verið í kastljósi fjölmiðla síðustu misserin vegna Samherjaskjalanna sem birtust á Wikileaks og upplýsingar komu fram um vafasama viðskiptahætti Samherja í Namibíu.

Í tilkynningunni segir að Karl Eskil sé reyndur fjölmiðlamaður sem hafi starfað í tvo áratugi á fréttastofu RÚV á Akureyri, verið ritstjóri héraðsfréttablaðsins Vikudags, sjálfstæður blaðamaður og nú síðast dagskrárgerðarmaður á sjónvarpsstöðinni N4 á Akureyri.

Sjávarútvegur hafi verið helsta sérgrein hans í fjölmiðlun, einnig umfjöllun um viðskipta- og mannlíf í landinu, sérstaklega á landsbyggðinni.

Þekkir vel til starfsemi og innviða Samherja

Haft er eftir Karli Eskil að vegna starfa sinna undanfarna áratugi þekki hann nokkuð til starfsemi og innviða Samherja. 

„Samherji er líklega með stærri nýsköpunarfyrirtækjum landsins. Í því sambandi nægir að nefna glæsilegan skipaflota, fullkomnar landvinnslur, skip sem getur geymt lifandi fisk í sér útbúnum tönkum og fyrirhugað landeldi í Reykjanesbæ. Listinn er reyndar lengri hvað nýsköpun varðar.

Hjá Samherja starfar lausnamiðað og dugmikið fólk, sem nær árangri við að þróa þetta framsækna og tæknivædda fyrirtæki, þar sem lögð er áhersla á gott og skapandi starfsumhverfi. Ég er sem sagt fullur tilhlökkunar og þakklátur fyrir að hafa verið munstraður um borð. Mörg stór verkefni eru í farvatninu hjá Samherja, sem félagið vill segja frá og upplýsa með vönduðum og traustum hætti,“ er haft eftir Karl Eskil sem hóf störf í dag. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×