Viðskipti innlent

Aríel tekur við for­mennsku í Sjó­manna­dags­ráði

Atli Ísleifsson skrifar
Hálfdan Henrýsson afhenti Aríel Péturssyni lyklavöldin að skrifstofu Sjómannadagsráðs sem er til húsa hjá Hrafnistu í Laugarásnum í Reykjavík.
Hálfdan Henrýsson afhenti Aríel Péturssyni lyklavöldin að skrifstofu Sjómannadagsráðs sem er til húsa hjá Hrafnistu í Laugarásnum í Reykjavík. Sjómannadagsráð

Aríel Pétursson, varaformaður Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins frá síðasta aðalfundi sem fram fór í vor, tók í dag við formennsku í ráðinu af Hálfdani Henrýssyni. Hálfdán hefur starfað með Sjómannadagsráði óslitið í 34 ár.

Í tilkynningu kemur fram að Hálfdan hafi verið kosinn í ráðið 1987 þar sem hann hafi tekið að sér ritnefndarstörf fyrir Sjómannadagsblaðið og gegnt því embætti í um aldarfjórðung. 

„Hálfdan var síðan kjörinn í stjórn Sjómannadagsráðs 1993 og hefur síðan þá gegnt starfi ritara og gjaldkera Sjómannadagsráðs auk varaformennsku sem hann gegndi um árabil, eða allt þar til hann tók við sem formaður í maí 2017.

Aríel er 34 ára, fæddur í Reykjavík 22. nóvember 1987. Aríel er menntaður í skipstjórnarfræðum frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og frá Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins í Kaupmannahöfn þaðan sem hann útskrifaðist 2020. Aríel er kvæntur Hrefnu Marín Sigurðardóttur, dösnkukennara og eiga þau þrjú börn; Jökul Orra (7 ára), Esju Marín (5 ára) og Eld Hrafn (2 ára). Aríel og Hrefna eru búsett í Garðabæ. 

Aríel hefur hingað til starfað sem yfirstýrimaður á freigátum danska sjóhersins, en starfaði áður á togurum íslenskra útgerða, m.a. sem stýrimaður, auk skipa Landhelgisgæslunnar þar sem hann var einnig stýrimaður,“ segir í tilkynningunni.

Sjómannadagsráð er meðal annars eigandi Hrafnistuheimilanna sem starfrækir í dag átta hjúkrunarheimili í fimm sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins, og íbúðaleigufélagsins Naustavarar, sem á og rekur ríflega 260 leiguíbúðir fyrir sextíu ára og eldri á höfuðborgarsvæðinu. 

„Hrafnista er ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins og rekur um fjórðung allra hjúkrunarrýma á landinu. Íbúar heimilanna eru alls um 800 og dagdvalargestir á fjórða hundrað. Um 1.400 manns vinna á Hrafnistu sem skipar henni á bekk með fjölmennari vinnustöðum landsins þar sem þjónusta er veitt allan sólarhringinn alla daga ársins,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×