Viðskipti innlent

Makrílafli innan lögsögu Íslands dregist verulega saman í sumar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þorsteinn Kristjánsson, skipstjóri og forstjóri Eskju á Eskifirði.
Þorsteinn Kristjánsson, skipstjóri og forstjóri Eskju á Eskifirði. Arnar Halldórsson

Makrílstofninn í Norðaustur-Atlantshafi mælist nærri sextíu prósentum minni en í fyrra og hefur ekki mælst minni í áratug. Makrílafli innan lögsögu Íslands hefur einnig snarminnkað í sumar og hafa útgerðir þurft að sækja megnið af makrílnum alla leið í Smuguna.

Í frétt Stöðvar 2 frá Eskifirði mátti sjá hvar verið var að landa makríl úr Guðrúnu Þorkelsdóttur SU sem veiddist í Smugunni. Aflinn var 800 tonn sem dælt var beint inn í vinnsluna hjá Eskju.

Frá Eskifirði. Uppsjávarfrystihús Eskju til hægri.Arnar Halldórsson

Uppsjávarfrystihús Eskju þykir það fullkomnasta hérlendis og þótt víðar væri leitað en þar var verið að heilfrysta makrílinn til sölu á erlenda markaði. Útflutningstekjur þjóðarbúsins af makríl í fyrra námu um átján milljörðum króna. En hvernig hafa veiðarnar gengið í sumar?

„Það hefur gengið frekar treglega, skulum við segja, í sumar,“ svarar Þorsteinn Kristjánsson, skipstjóri og forstjóri Eskju.

Frá vinnslu makríls á Eskifirði.Arnar Halldórsson

Samkvæmt tölum Fiskistofu er makrílaflinn, það sem af er ári, fjórðungi minni miðað við sama tíma í fyrra.

„Við erum svo sem langt komnir með okkar veiðiheimildir,“ segir Þorsteinn.

Nýjar tölur sem Hafrannnsóknastofnun birti í dag úr fjölþjóðlegum leiðangri sýna að minna mældist af makríl í Norðaustur-Atlantshafi í sumar en mælst hefur frá árinu 2012. Samdráttur lífmassa makríls frá því í fyrra er 58 prósent.

Dreifing makríls austur af Íslandi á tímabilinu júní til ágúst 2021. Enginn makríll mældist í hvítum reitum og gulur til rauður litakvarði táknar vaxandi þéttleika sem tonn á ferkílómetra. Stærð hringja sýnir magn makríls á togstöðvum sem tonn á ferkílómetra.Hafrannsóknastofnun

Og það vekur athygli að í ár hafa aðeins sextán prósent makrílafla íslensku fiskiskipanna veiðst innan íslensku lögsögunnar, miðað við þrjátíu prósent í fyrra.

„Makríllinn er búinn að vera mikið úti í Smugu í sumar. Þó að hann hafi verið hér í lögsögunni þá er það mikið blandað af síld og illveiðanlegur, mjög dreifður. Þannig að við höfum þurft að sækja þetta mikið út í alþjóðasjóinn,“ segir Þorsteinn.

800 tonnum af makríl var landað úr Guðrúnu Þorkelsdóttur SU til vinnslu á Eskifirði.Arnar Halldórsson

Lengri túrum hefur verið mætt með breyttu fyrirkomulagi veiða þar sem skipin safna aflanum saman í eitt skip.

„Við erum með þrjú skip. Þau veiða alltaf í einn. Svo kemur hann í land. Þá fiska tveir saman.“

Þannig fæst aukin hagkvæmni.

„Þetta hefði aldrei gengið nema að hafa þetta svona í þessari samvinnu. Norðfirðingarnir byrjuðu á þessu og svo hafa aðrir farið að apa eftir. Og það hefur gengið bara vel,“ segir forstjóri Eskju á Eskifirði.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Fimm útgerðir falla frá málsókn um skaðabætur

Sjávarútvegsfyrirtækin Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes hafa ákveðið að falla frá málsókn á hendur íslenska ríkinu vegna meints fjártjóns við úthlutum aflaheimilda í makríl fyrr á þessum áratugi.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.