Viðskipti innlent

„Þetta er hálf nöturleg framtíðarsýn“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jón Mýrdal, veitingamaður á Skuggabaldri.
Jón Mýrdal, veitingamaður á Skuggabaldri. Stöð 2

Jón Mýrdal, eigandi Húrra og Skuggabaldurs í miðbæ Reykjavíkur, segir að sér finnist sú framtíðarsýn sem sett er fram í minnisblaði sóttvarnalæknis um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna á Íslandi vegna Covid-19 vera hræðileg. Hann bendir á að á skemmtistöðum sé farið eftir ströngum kröfum um sóttvarnir, annað en til dæmis í partýum í heimahúsum.

Rætt var við Jón í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í tilefni þess að í dag var greint frá þeim tillögum sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kallar eftir að verði við lýði þar til faraldurinn er um garð genginn. Þar er meðal annars lagt til að veitingastaðir, skemmistaðir og barir megi vera opnir til 23 á kvöldin.

„Þetta er hálf nöturleg framtíðarsýn. Við veitingamenn erum bara alls ekkert ánægðir með að þetta sé það sem er í pípunum. Við reynum okkar besta, við sprittum okkur, við skráum fólk inn, við erum með dyraverði, við erum með bil á milli fólks. Það er ekki gert í heimapartýum,“ sagði Jón.

Sagði Jón að tekjufall hafi verið gríðarlegt, allt að 90 prósent, á milli helga í sumar eftir að sóttvarnaraðgerðir voru hertar á ný, eftir að engar takmarkanir voru í gildi um skamma hríð í sumar.

„Við reynum okkar besta og við teljum okkur vera í liði með sóttvarnaryfirvöldum en við lifum ekki á því að það sé lokað hjá okkur klukkan ellefu, það gengur bara ekki upp,“ sagði Jón.

Taldi Jón líklegt að hann þyrfti að segja upp fólki yrði veitingastöðum, börum og skemmtistöðum bannað að hafa opið til lengur en klukkan 23 í lengri tíma.

Þetta er framtíðarsýn sóttvarnalæknis. Hverja telur þá framtíðina vera hérna í miðbænum ef þetta gengur eftir?

„Bara hræðileg, þetta er menningarstarfsemi. Við erum að tala um leikhús, skemmtistaði, veitingastaði. Þetta er bara hluti af okkar menningu og við reynum að gera okkar besta til að hjálpa til. Við viljum ekki að fólk fái Covid. Við höfum bil, sótthreinsum og gerum allt. Mér finnst þetta hræðilegt ef þetta verður ofan á,“ sagði Jón.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×