Leik lokið: Ís­land - Dan­mörk 91-70 | Auðveldur en mikilvægur sigur Íslands

Elvar Már Friðriksson var besti maður vallarins í kvöld.
Elvar Már Friðriksson var besti maður vallarins í kvöld. Mynd/FIBA

Ísland vann gríðarlega mikilvægan sigur á Danmörku í forkeppni undankeppni heimsmeistaramótsins í körfubolta. Eftir að hafa tapað fyrir Svartfjallalandi í gær var ljóst að liðið einfaldlega þurfti að vinna til þess að vera í góðri stöðu fyrir síðari umferðina.

Það er skemmst frá því að segja að Ísland hafði yfirhöndina mestallan leikinn og hafði að lokum sigur 91-70.

Elvar Friðriksson var stigahæstur Íslands með 30 stig og 5 stoðsendingar. Hjá Dönum var Daniel Mortensen með 27 stig.

Leikurinn byrjaði hægt. Bæði liðin voru að þreyfa á vörn hins liðsins og það var ekki mikið að frétta í sókninni. Það var hins vegar ljóst strax í síðari hluta fyrri hálfleiks að Elvar Friðriksson var mættur til leiks. Eftir að hafa átt allt í lagi leik í slöku íslensku liði gegn Svartfjallalandi þá sýndi Elvar að hann var besti sóknarmaðurinn á vellinum. Setti þrjár þriggja stiga körfur í leikhlutanum. Danir, með Daniel Mortensen nýjasta leikmann Þórs frá Þorlákshöfn í broddi fylkingar leiddu þó eftir fyrsta leikhluta 23-22.

Elvar hélt áfram uppteknum hætti í öðrum leikhluta og opnaði hann með þristi. Hann ákvað þó að bjóða fleiri leikmönnum með sér í veisluna. Allt íslenska liðið var að setja þriggja stiga skot og Tryggvi Hlinason var flottur í að loka teignum og íslenska liðið seig framúr. Liðið leiddi 43-39 eftir fyrri hálfleikinn og það var ljóst að þjálfari liðsins, Craig Pedersen var búinn að þrengja róteringu liðsins talsvert. Eftir að hafa spilað á öllum tólf leikmönnum liðsins í fyrsta leikhluta í fyrri leiknum þá voru það helstu hestar Íslands sem léku bróðurpartinn af mínútunum.

Ísland opnaði svo strax tíu stiga forystu í byrjun þriðja leikhluta. Kári Jónson var flottur á þessum kafla og minni spámenn börðust vel og sóttu stolna bolta og fráköst. Sérstaklega voru þeir Ólafur Ólafsson og Kristófer Acox öflugir í vörninni í leikhlutanum og hjálpuðu til við að byggja forystuna. Þegar þriðji leikhluti kláraðist var ljóst að Ísland var algerlega í bílstjórasætinu, 64-51 og eina spurningin var hversu stór sigurinn yrði.

Fjórði leikhluti var að mestu leiti formsatriði. Íslenska liðið bætti hægt og rólega við forystuna og Danir urðu hálf ráðalausir í sókninni. Ísland sigldi svo fínum sigri heim í lokin 91-70 og eru í ágætri stöðu fyrir síðari umferð riðilsins sem hefst á mánudag.

Hvað gekk vel?

Tapaðir boltar voru virkilegt vandmál í leiknum gegn Svartfjallalandi en liðið náði að laga það. Boltarnir sem töpuðust voru 12 talsins en flestir voru þeir ekki beint í hendurnar á Dönum heldur kannski sending sem fór útaf. Það skilaði sér í færri hraðaupphlaupskörfum andstæðingana.

Sendingar liðsins inn á stóra manninn í miðjunni Tryggva Hlinason höfðu breyst talsvert frá síðasta leik. Í stað þess að senda erfiðar gólfsendingar á Tryggva þá var boltanum haldið hátt uppi þar sem stóri strákurinn gat sótt boltann.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Dana var oft á tíðum tilviljanakenndur og truflaði það sóknarleik þeirra mikið að Tryggvi var fastur fyrir undir körfunni. Fá sniðskot í boði og Danir þurftu að treysta á þriggja stiga skotin sem að voru ekki að detta.

Maður leiksins

Elvar Friðriksson var langbesti maður vallarins í kvöld. 30 stig, 5 stoðsendingar og 5 fráköst hjá Elvari sem lék við hvurn sinn fingur sókanarlega og hélt sínu vel hinum megin á vellinum.

Hvað næst?

Ísland leikur næst á mánudagskvöld klukkan 18:00 gegn Svartfjallalandi og er það von fréttaritara Vísis að frammistaðan gegn svartfellingum verði betri.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.