Körfubolti

Bandaríkjamenn fá annað tækifæri gegn Frökkum sem lifðu af þrennu Doncic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rudy Gobert var hetja Frakka þegar hann varði lokaskot Slóvena í leiknum.
Rudy Gobert var hetja Frakka þegar hann varði lokaskot Slóvena í leiknum. AP/Charlie Neibergall

Frakkland er komið í úrslitaleikinn í körfubolta karla eftir eins stigs sigur Slóveníu, 90-89, í seinni undanúrslitaleik körfuboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó. Þrenna og átján stoðsendingar frá Luka Doncic dugðu ekki.

Leikurinn var æsispennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndunum. Slóvenar fengu lokasóknina en Rudy Gobert, besti varnarmaðurinn í NBA-deildinni, varði lokaskot þeirra og Frakkar fögnuðu sigri.

Frakkar og Slóvenar höfðu unnið alla leiki sína á mótinu og Frakkar unnu meðal annars Bandaríkjamenn í fyrsta leik. Bandaríkjamenn hafa ekki tapað síðan og liðin mætast aftur í úrslitaleiknum á laugardaginn

Luka Doncic var með þrennu í leiknum en hann skoraði 16 stig, tók 10 fráköst og gaf 18 stoðsendingar. Frakkar réðu illa við hann í byrjun leiks en svo tókst þeim betur að loka á hann. Doncic hitti aðeins úr 5 af 18 skotum sínum í leiknum. Þetta var samt fyrsta þrennan á Ólympíuleikum síðan að LeBron James náði því í London 2012.

Nando De Colo skoraði 25 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar hjá Frökkum og Evan Fournier var með 23 stig. Rudy Gobert skoraði 9 stig, tók 16 fráköst og varði 4 skot. Timothé Luwawu-Cabarrot var með 15 stig og hitti úr 3 af 4 þriggja stiga skotum.

Mike Tobey var stigahæstur hjá Slóvenum með 23 stig og Klemen Prepelic skoraði 17 stig.

Slóvenar með Doncic í fararbroddi komust mest átta stigum yfir í fyrsta leikhlutanum, 25-17, og var Luka með átta stig og fimm stoðsendingar á þessum upphafskafla leiksins.

Frakkar voru búnir að minnka það niður í tvö stig, 29-27, fyrir lok leikhlutans.

Leikurinn var áfram æsispennandi í öðrum leikhlutanum en eftir hann voru Slóvenar áfram tveimur stigum yfir, 44-42. Doncic var kominn með tólf stig, sjö fráköst og átta stoðsendingar í hálfleik.

Frakkarnir byrjuðu seinni hálfleikinn sterkt og tóku frumkvæðið í leiknum með því að vinna þriðja leikhlutann 29-21 og leiða þar með sex stigum fyrir lokaleikhlutann.

Slóvenar þurftu eitthvað sérstakt frá Doncic í lokaleikhlutanum en honum gekk illa að skora í seinni hálfleiknum. Leikurinn var áfram jafn og Doncic dældi stoðsendingunum. Slóvenum tókst að minnka muninn niður í eitt stig og vinna boltann en besti varnarmaðurinn í NBA deildinni kláraði leikinn með fyrrnefndu vörðu skoti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×