Handbolti

Egyptar rúlluðu yfir strákana hans Alfreðs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar áttu engin svör við góðum leik Egyptalands.
Strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar áttu engin svör við góðum leik Egyptalands. getty/Jan Woitas

Egyptaland varð síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó með öruggum 26-31 sigri á Þýskalandi í dag.

Þetta er í fyrsta sinn sem Egyptaland kemst í undanúrslit á Ólympíuleikum og jafnframt í fyrsta sinn sem lið frá Afríku kemst svona langt.

Þýsku strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar eru hins vegar úr leik. Þeir náðu sér ekki á strik í leiknum í dag og voru alltaf í eltingarleik.

Egyptaland byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 1-6. Egyptar leiddu svo með 2-4 mörkum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Staðan að honum loknum var 12-16, Egyptalandi í vil.

Egyptar gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik og hleyptu Þjóðverjum aldrei nær sér en þremur mörkum. Undir lokin jókst munurinn og varð mestur sjö mörk. Þegar uppi var staðið munað fimm mörkum á liðunum, 26-31.

Í undanúrslitunum mætast Egyptaland og Frakkland annars vegar og Danmörk og Spánn hins vegar. Undanúrslitaleikirnir fara fram á fimmtudaginn.

Ali Mohamed og Yahia Omar skoruðu fimm mörk hvor fyrir Egyptaland. Julius Kühn var langbesti leikmaður þýska liðsins og skoraði sex mörk líkt og Johannes Golla.

Karim Handawy varði frábærlega í egypska markinu, alls átján skot, á meðan markverðir Þýskalands, Andreas Wolff og Johannes Bitter, náðu sér engan veginn á strik og vörðu aðeins samtals fjögur skot.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×