Handbolti

Norsku stelpurnar keyrðu yfir lið Svart­fjalla­lands í seinni hálf­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson sá sínar stelpur eiga frábæran seinni hálfleik á móti Svartfjallalandi.
Þórir Hergeirsson sá sínar stelpur eiga frábæran seinni hálfleik á móti Svartfjallalandi. AP/Sergei Grits

Norska kvennalandsliðið í handbolta hélt sigurgöngu sinni áfram á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt og eru þær öruggar í átta liða úrslitin þegar tveir leikir eru eftir.

Noregur vann 35-23 sigur á Svartfjallalandi og hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína á leikunum með samtals 33 mörkum eða ellefu mörkum að meðaltali í leik.

Stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar voru reyndar ekki alltof sannfærandi framan af leik enda þremur mörkum undir um miðjan fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur liðsins var aftur á móti frábær en hann unnu þær norsku með tólf marka mun, 22-10.

Noregur er í fullt hús í riðlinum eins og Holland sem vann níu marka sigur á Angóla í nótt, 37-28. Suður Kórea vann síðan þriggja marka sigur á Japan, 27-24.

Nora Mörk og Henny Reistad voru markahæstar hjá norska liðinu með sjö mörk hvor en þær Stine Bredal Oftedal og Sanna Solberg-isaksen skoruðu báðar sex mörk.

Norsku stelpurnar skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins en Svartfjallaland tók síðan öll völd og komst þremur mörkum yfir í 8-5. Þórir tók þá leikhlé og norska liðið náði að jafna metin í 13-13 fyrir hálfleik.

Eftir þennan spennandi fyrri hálfleik þá bjuggust flestir við meiri spennu í þeim síðari en svo varð ekki raunin.

Norsku stelpurnar keyrðu yfir lið Svartfjallalands í seinni hálfleiknum.

Staðan var reyndar 15-15 í upphafi hálfleiksins en þá komu þrjú norsk mörk í röð. Leikhlé Svartfellinga breyttu litlu og þegar hálfleikurinn var hálfnaður var munurinn orðinn átta mörk, 26-18. Eftirleikurinn var auðveldur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.