Formúla 1

Vilja að Hamilton hljóti harðari refsingu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hamilton fagnaði sigri á Silverstone eftir að hafa farið utan í Verstappen í byrjun kappakstursins.
Hamilton fagnaði sigri á Silverstone eftir að hafa farið utan í Verstappen í byrjun kappakstursins. Formula 1/Formula 1 via Getty Images

Lið Red Bull í Formúlu 1 kappakstrinum hefur krafist harðari refsingar á hendur heimsmeistaranum Lewis Hamilton eftir að honum lenti saman við Max Verstappen í í breska kappakstrinum þann 18. júlí. Verstappen féll úr keppni og endaði á sjúkrahúsi eftir áreksturinn.

Hamilton, sem keyrir fyrir Mercedes, er ríkjandi heimsmeistarari og hefur unnið titilinn sex af síðustu sjö árum. Yfirburðir Mercedes hafa verið miklir í samræmi við það en liðið hefur unnið keppni bílasmiðja síðustu sjö árin í röð.

Hollendingurinn ungi Max Verstappen, sem keyrir fyrir Red Bull, hefur hins vegar veitt Hamilton mikla samkeppni í ár og er efstur í stigatöflu ökuþóra.

Umdeilt atvik varð strax í upphafi síðasta kappaksturs á Silverstone-brautinni á Bretlandi þar sem Hamilton fór utan í bíl Verstappen sem var að taka fram úr Bretanum, með þeim afleiðingum að Verstappen missti stjórn og þaut utan í öryggisvegg. Bíllinn gjöreyðilagðist og Verstappen lauk keppni auk þess að þurfa að fara á sjúkrahús vegna meiðsla af völdum árekstursins.

Hamilton hlaut 10 sekúndna refsingu fyrir atvikið en kom til baka þar sem hann náði fram úr Charles Leclerc á Ferrari þegar tveir hringir voru eftir til að tryggja sér sigurinn. Hamilton hlaut 25 stig fyrir sigurinn og minnkaði bilið í Verstappen í keppni ökuþóra úr 32 stigum í aðeins átta stiga mun.

Red Bull hefur áfrýjað dómi Formúlunnar og krefst harðari refsingar gegn Hamilton vegna slyssins. Liðin munu mæta fyrir nefnd á fimmtudag þar sem Red Bull þarf að færa fram ný gögn, sem ekki voru fyrir hendi þegar ákvörðun um fyrri refsingu var tekin, til að sýna fram á frekari sekt Hamiltons.

Christian Horner, sem er yfir liði Red Bull, segir slysið hafa kostað liðið 1,8 milljónir bandaríkjadala, sem er meira en 1% af heildarfjármagni liðsins fyrir tímabilið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.