Körfubolti

Luka skoraði 48 stig á aðeins 31 mínútu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic var frábær með slóvenska landsliðinu í nótt.
Luka Doncic var frábær með slóvenska landsliðinu í nótt. AP/Charlie Neibergall

Slóvenski bakvörðurinn Luka Doncic mun fara langt með lið sitt á Ólympíuleikunum í Tókýó ef hann ætlar að spila áfram eins vel og hann gerði í nótt.

Luka Doncic skoraði þá 48 stig þegar Slóvenía vann 118-100 sigur á Argentínu í fyrsta leik liðanna á leikunum. Þetta er það næstmesta sem leikmaður hefur skorað í einum leik í körfuboltakeppni Ólympíuleikanna.

Doncic spilaði aðeins í 31 mínútu og 7 sekúndum og var því með miklu meira en stig á mínútu en auk þess var hann með 11 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 varin skot.

Slóvenska liðið vann með 34 stigum á meðan Doncic var inn á vellinum. Hann sat á bekknum síðustu fjórar mínútur leiksins þegar honum vantaði átta stig til að bæta stigamet Oscar Schmidt frá 1988.

Doncic hitti úr 18 af 29 skotum sínum þar af 6 af 14 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Klemen Prepelic skoraði 22 stig fyrir Slóvena og Mike Tobey var með 11 stig og 14 fráköst. Luis Scola (23 stig) og Facundo Campazzo (21 stig) voru stigahæstir hjá Argentínu en Gabriel Deck skoraði 17 stig.

Scola er 41 árs gamall og er að spila á sínum fimmtu Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×