Skoðun

Störf án stað­setningar: næsta skref

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar

Í dag skrifaði ég undir samning við Sigtún – Þróunarfélag um mikilvægt tilraunaverkefni sem felst í því að byggja upp vinnustofu, einskonar klasa, í gamla Landsbankahúsinu á Selfossi. Í þessari vinnustofu gefst þeim sem búa á Suðurlandi og sækja vinnu hjá ríkinu á höfuðborgarsvæðinu að starfa alla vinnuvikuna eða hluta hennar í heimabyggð. Með þessu er stigið stórt skref í þróun þess sem í stjórnarsáttmála var nefnt störf án staðsetningar. Má í raun segja að nýr vinnustaður verði opnaður í lok sumars á Selfossi.

Frá undirrituninni á Selfossi fyrr í dag.

Störf án staðsetningar eru ný hugsun í stofnanakerfi ríkisins, hugsun sem skilur starfsemi frá steinsteypu og veitir fólki tækifæri til að starfa í heimabyggð, þeirri byggð þar sem þeim og fjölskyldum þeirra líður best. Störf án staðsetningar skapa tækifæri til þess að nýta hæfileika fólks hringinn í kringum landið og fá sjónarmið ólíkra landshluta á sterkari hátt inn í starf stofnana ríkisins.

Tilraunaverkefnið á Selfossi veitir þeim sem búa á svæðinu tækifæri til að stunda vinnu sína án þess að þurfa að leggja á sig langan akstur yfir heiði sem getur verið grimm á vetrum. Í verkefninu felst að starfsmaðurinn minnkar akstur verulega með tilheyrandi lífsgæðaaukningu því fæstum okkar þykir gefandi að sitja lengi í bíl. Kolefnisbókhald starfsmannsins tekur einnig stakkaskiptum.

Störf án staðsetningar er hugmyndafræði sem veitir byggðum landsins stórkostlegt tækifæri til að vaxa og dafna. Það samstarf sem felst í sameiginlegri undirritun ríkisins, sveitarfélagsins, Samtaka atvinnulífsins og einkaaðila á Selfossi færir stefnuna um störf án staðsetningar af hugmyndastiginu yfir í markvissar aðgerðir og uppbyggingu.

Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×