Körfubolti

Vanessa Bryant semur við þyrlufyrirtækið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vanessa Bryant flytur ræðu á athöfninni þegar Kobe Bryant var tekinn inn í heiðurshöll körfuboltans.
Vanessa Bryant flytur ræðu á athöfninni þegar Kobe Bryant var tekinn inn í heiðurshöll körfuboltans. getty/Maddie Meyer

Vanessa Bryant, ekkja Kobes Bryant, hefur ákveðið að semja í máli sínu gegn flugmanninum og eiganda þyrlunnar sem brotlenti í Los Angeles janúar á síðasta ári þar sem Kobe, dóttir hans, Gianna, sjö aðrir létust.

Vanessa Bryant og fjölskyldur hinna fórnarlambanna höfðuðu mál á hendur þyrlufyrirtækinu og flugmanninum, Ara Zobayan, og fóru fram á skaðabætur.

Þau hafa nú fallið frá því og ákveðið að gera sátt í málinu. Ekki liggur enn fyrir í hverju hún felst.

Mikil þoka var í Los Angeles daginn sem slysið átti sér stað og skyggni var slæmt. Þyrlur lögreglunnar í Los Angeles voru kyrrsettar en Zobayan fékk undanþágu til að fljúga af stað.

Í málinu sem var höfðað á hendur þyrlufyrirtækinu og Zobayan kom fram að hann hefði sýnt skeytingsleysi í starfi sínu þegar hann ákvað að fljúga af stað og hann hefði átt að hætta við.

Jafnframt kom fram Zobayan hefði ekki fengið viðeigandi þjálfun hjá þyrlufyrirtækinu. Það hafnaði sök í mál og sagði að slysið hefði verið verk guðs sem það gæti ekki stjórnað.

Bryant-feðginin og aðrir farþegar í þyrlunni voru á leið á körfuboltamót í Ventura-sýslu þegar hún brotlenti.

Kobe var 41 árs þegar hann lést og Gianna þrettán ára. Kobe og Vanessa áttu þrjú önnur börn.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.